Skip to content

SUMARLESTUR!

Kæru foreldrar/forráðamenn!

Nú er sumarfríið hafið hjá nemendum og verður það vonandi gott og gjöfult. Það er mikilvægt að halda lestrarfærninni við yfir sumartímann en á sumrin gefast ótal ný og spennandi tækifæri á góðum lestrarstundum fyrir fjölskylduna.

Allir nemendur í 1.-7. bekk fengu lestrarlandakort með vitnisburðinum sínum við skólalok sem tilvalið er að nota til að halda utan um lesturinn í sumar. Á kortunum má finna mismunandi litaða vegi sem hver um sig táknar ákveðna tegund bóka ásamt hugmyndum að bókum fyrir hverja tegund en það má að sjálfsögðu lesa bækur sem eru ekki á listanum. Við hvetjum nemendur til að kanna sem flesta vegi í sumar og kynnast þannig fjölbreyttu lesefni.

Á bakhlið landakortsins er hægt að skrifa niður þær bækur sem lesnar eru, taka mynd í lok sumars og senda á netfangið sumarlestur2020@mms.is. Þeir sem senda inn mynd komast í pott og eiga möguleika á bókagjöf. Einnig verða veittar viðurkenningar í Norðlingaskóla eftir sumarfrí, á degi læsis þann 8. september, fyrir þá sem skila landakortinu á bókasafnið eða senda mynd af bakhlið landakortsins á thordis.steinarsdottir@rvkskolar.is. Athugið að ekki þarf að fylla allar leiðirnar til að skila inn! 

Auðvelt er að nálgast gott úrval bóka á Borgarbókasafninu en börn og unglingar að 18 ára aldri fá ókeypis skírteini. Það útibú sem er næst Norðlingaholti er í Hraunbæ 119, á annarri hæð í sama húsnæði og Bónus. Önnur útibú eru í Gerðubergi, Spönginni, Sólheimum, Kringlunni og Grófinni. Einnig geta skírteinishafar á Borgarbókasafninu fengið lánaðar bækur á bókasöfnum Seltjarnarness og Mosfellsbæjar.

Frekari upplýsingar um sumarlesturinn er að finna á læsisvef Menntamálastofnunar.

Við hvetjum ykkur foreldra/forráðamenn til að taka þátt í lestrarferðalaginu með ykkar barni/börnum og óskum ykkur gleðilegs lestrarsumars.