Skip to content

Heilsuvernd skólabarna

Heilsugæsla í Norðlingaskóla heyrir undir Heilsugæsluna Árbæ og skólahjúkrunarfræðingar skólaárið 2021-2022 eru Agnes Svansdóttir og Sigríður Guðrún Elíasdóttir.

Heilsuvernd skólabarna er framhald af ung- og smábarnavernd sem börn og fjölskyldur þeirra hafa flest fengið hjá heilsugæslunni frá fæðingu. Markmið heilsuverndar skólabarna er að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Starfsemi hennar er samkvæmt lögum, reglugerðum og tilmælum Embættis landlæknis. Í henni felast skimanir, viðtöl um lífsstíl og líðan, bólusetningar og heilbrigðisfræðsla, ásamt ráðgjöf til nemenda, fjölskyldna þeirra og starfsfólks skólans. Vinnuaðstaða skólahjúkrunarfræðinga er í skólanum þó heilsugæslan sé vinnuveitandi þeirra.

HEILBRIGÐISFRÆÐSLA
Hluti af starfi skólahjúkrunarfræðinga er að vinna að heilsueflingu og forvörnum í skólunum. Þetta krefst góðs samstarfs við kennara eins og allt annað í starfi heilsugæslunnar í skólunum. Skólahjúkrunarfræðingar eru ekki kennarar en þeir hafa sérfræðiþekkingu á sínu sviði og fræðsluefni sem sérstaklega er hannað fyrir heilbrigðisstarfsfólk til forvarnarfræðslu í grunnskólum. Þessi fræðsla er að hluta til einstaklingsfræðsla sem fram fer inni hjá hjúkrunarfræðingi, oftast í tengslum við skoðanir, fræðsla í litlum hópum eða fræðsla til stærri hópa eins og bekkjar eða námshóps. Alltaf er um að ræða ákveðið fræðsluefni fyrir ákveðinn aldur. Þegar um er að ræða fræðslu til heilla námshópa er mikilvægt að kennari sé til staðar en hjúkrunarfræðingur kemur inn sem gestur í kennslustundina.

YFIRLIT YFIR SKOÐANIR, BÓLUSETNINGAR OG FRÆÐSLU

SKOÐANIR
Reglubundnar skoðanir og skimanir eru framkvæmdar þegar börnin eru 6, 9, 12 og 15 ára. Við það tækifæri tekur hjúkrunarfræðingur viðtal við börnin um lífsstíl og líðan.
Eftirfarandi skimanir eru framkvæmdar:

  • 1. bekkur: Hæð, þyngd, heyrnarmæling, sjónskerpupróf
  • 4. bekkur: Hæð, þyngd og sjónskerpupróf
  • 7. bekkur: Hæð, þyngd, sjónskerpupróf og litaskynspróf
  • 9. bekkur: Hæð, þyngd og sjónskerpupróf

BÓLUSETNINGAR
Markmið bólusetninga er að koma í veg fyrir alvarlega smitsjúkdóma. Sjúkdómar sem áður voru algengir og voru lífshættulegir ungum börnum hafa með tilkomu bólusetninga nánast horfið. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin fullyrðir að engar læknisfræðilegar aðgerðir séu mönnum eins hagkvæmar og bólusetningar.

Bólusetningar eru samkvæmt tilmælum landlæknis um bólusetningar barna.

  • 12 ára (7. bekkur): Bólusett gegn rauðum hundum, hettusótt og mislingum allt í einni sprautu. Stúlkur bólusettar gegn HPV (Human Papiloma Virus) til að minnka líkur á legháls-krabbameini. Tvær sprautur með 6 mánaða millibili.
  • 15 ára (9. bekkur): Bólusett gegn mænusótt, barnaveiki, stífkrampa og kíghósta allt í einni sprautu.

Bólusetningarnar valda alltaf titringi í skólanum þegar þær eru framkvæmdar en með góðu samstarfi allra gengur þetta alltaf upp að lokum.

SKIPULAG FRÆÐSLUNNAR
Skólar eru mismunandi og aðstæður í skólum breytilegar frá ári til árs. Í sumum skólum er samkennsla árganga og aðrir skólar eru mjög fámennir. Því er mikilvægt að sveigjanleiki sé til staðar þegar heilbrigðisfræðslan er skipulögð.

Hér er listi yfir það forvarnarefni sem hjúkrunarfræðingur kynnir.

1. bekkur: Líkaminn minn
2. bekkur: Tilfinningar
3. bekkur: Verkefnabók 6H
4. bekkur: Kvíðafræðsla
5. bekkur: Hamingja/Samskipti
6. bekkur: Endurlífgun, Kynþroskinn
7. bekkur: Er engin fræðsla
8. bekkur: Hugrekki
9. bekkur: Kynheilbrigði
10. bekkur: Endurlífgun. Geðsjúkdómar. Ábyrgð á eigin heilsu.

Fræðslan fer að mestu leyti fram eftir áramót en á haustönn er verið er að skima stóra árganga ásamt því að taka nemendur í lífsstílsviðtöl.

Hægt er að lesa nánar um starfsemi heilsuverndar skólabarna hjá Heilsugæslunni.