Skip to content

Áætlun gegn einelti

Allt starf Norðlingaskóla miðast við að nemendum líði vel og að nám og starf nemandans miðist við þarfir hans og getu. Starf skólans grundvallast á því lífsviðhorfi að hverjum einstaklingi skuli búin skilyrði svo hann megi á eigin forsendum, þroskast og dafna og útskrifast úr grunnskóla sem sjálfstæður, sterkur og ekki síst lífsglaður einstaklingur. Skólinn miðar allt starf sitt að því að ekki skapist skilyrði til eineltis.

Eineltisteymi Norðlingaskóla

Í eineltisteymi skólans eru eftirtaldir starfsmenn:

 • Aðstoðarskólastjóri/yfirmaður stoðþjónustu skólans
 • Deildarstjóri
 • Náms- og starfsráðgjafi
 • Sérkennari viðkomandi námshóps
 • Umsjónarkennari þolanda
 • Umsjónarkennari geranda
 • (Nemendaverndarráð)

 

Viðmið

Norðlingaskóli hefur sett fram viðmið sem lýsa einelti:

Skilgreining á einelti

Einelti er þegar einstaklingur verður margendurtekið og á afmörkuðu tímabili fyrir aðkasti á einhvern hátt frá einum eða fleiri aðilum. Einelti getur birst á margan hátt.

Félagslegt einelti

Barnið skilið útundan í leik, barnið þarf að þola svipbrigði, augngotur, þögn eða algert afskiptaleysi.

Andlegt einelti

Barnið er þvingað til að gera eitthvað sem stríðir algerlega gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu.

Líkamlegt einelti

Gengið er í skrokk á barninu.

Munnlegt einelti

Uppnefni, stríðni eða niðurlægjandi athugasemdir. Hvíslast er á um barnið, flissað og hlegið.

Rafrænt einelti

Neikvæð og skaðleg skilaboð um eða til einhvers sem er komið áleiðis í gegnum: Tölvupóst – Facebook – SMS – YouTube – Spjallrásir -  Snapchat - Teknar myndir og birtar á netinu eða sendar með síma.

 

Forvarnir í eineltismálum

 1. Starfsfólk skólans vinnur markvisst að því að byggja upp jákvæða sjálfsmynd og þjálfa félagsfærni og samskipti barnanna. Tekið er fram að einelti og ofbeldi sé ekki liðið.
 2. Umsjónarkennarar ræða við nemendur sína um hvað einelti er og hvert þeir eigi að snúa sér ef þeir verða vitni að eða verða fyrir einelti af einhverju tagi í skólanum.
 3. Í lífsleikninámi nemenda er m.a. fjallað um samskipti, tilfinningar og þar með einelti.
 4. Almennri umræðu meðal starfsfólk um einelti er haldið opinni jafnt og þétt.
 5. Nemendur eru hvattir til að ræða í trúnaði við kennara/náms- og starfsráðgjafa ef þeim á einhvern hátt líður ekki vel í skólanum.
 6. Tengslakannanir/líðanakannanir eru lagðar fyrir einu sinni á vetri og eftir þörfum í samráði við náms- og starfsráðgjafa. Úrvinnsla og eftirfylgni er í höndum umsjónarkennara í samvinnu við náms- og starfsráðgjafa og kennarateymin.

 

 Boðleiðir ef upp kemur einelti í Norðlingaskóla

 1. Ef grunur er um einelti er umsjónarkennari látinn vita, hann kannar málið og virkjar eineltisteymið ef þurfa þykir.
 2. Eineltisteymið rannsakar málið m.a. með því að ræða við þolanda og geranda og aðra þá sem veitt geta upplýsingar. Fyrsta skrefið er að skoða hvort grípa þurfi til aðgerða sem miðast við að stöðva eineltið strax og hins vegar gæta þess að öryggi þolanda sé tryggt. Þetta er sem dæmi gert með því að setja á sérstaka gæslu og eftirlit í frímínútum eða í matsal. Teymið ræðir við málsaðila og foreldra þeirra, fyrst þann sem eineltið beinist að og síðan þann/þá sem taldir eru standa fyrir eineltinu.
 3. Starfsfólk sem sinnir gæsluhlutverki er upplýst um málið svo það geti haft vakandi auga með aðstæðum og hegðun þeirra barna sem um ræðir.
 4. Umsjónarkennari er í sambandi við forráðamenn og tryggir að ferill mála sé skráður.
 5. Starfsmenn skólans eru upplýstir um málið eftir atvikum.
 6. Skólastjóri ber ábyrgð á að starfið sé samhæft og kallar til starfsfólk sérfræðiþjónustu ef þurfa þykir.
 7. Sá sem einelti beinist að og sá/þeir sem stóðu fyrir eineltinu fá skipulegan stuðning og aðhald í a.m.k. 6 mánuði frá sitthvorum aðilanum. Skoða þarf einnig hvort bekkurinn/hópurinn þarf stuðning.
 8. Foreldrar eða skólar geta óskað eftir aðstoð sérstaks fagráðs (www.gegneinelti.is) sem starfar á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytisins ef ekki tekst að finna viðunandi lausn innan skóla eða sveitarfélags.
 9. Ákvörðun um úrvinnslu er tekin á grundvelli niðurstaðna og í samráði við málsaðila og eru þeir upplýstir um niðurstöðuna í samráði við foreldra málsaðila.
 10. Eineltisteymið fylgir málum eftir í  allt að 6 mánuði.
 11. Málinu lokað með formlegum hætti.
 12. Verklagsreglur Reykjavíkurborgar um eineltismál, frá september 2012, eru hafðar að leiðarljósi í öllu ferlinu.