Þróunarverkefni

Allt frá stofnun Norðlingaskóla haustið 2005 hefur verið lögð mikil áhersla á að starfsfólk skólans vinni að og taki sem allra mest þátt í nýbreytnistarfi og skólaþróun í landinu og því hefur skólinn unnið að mörgum formlegum þróunarverkefnum samhliða því að litið er svo á að mótun skólastarfsins sjálfs sé í raun stöðug skólaþróun. 

Eitt af meginmarkmiðum þróunarverkefna er að auðga skólastarfið, stuðla að nýbreytni og efla samvinnu við þá sem koma að skólanum auk þess að stuðla að því að gera foreldra, nemendur og aðra áhugasama að virkum þátttakendum í uppbyggingu og þróun skólastarfsins í Norðlingaskóla. Þá lítur starfsfólk Norðlingaskóla svo á að mikilvægt sé að deila með öðrum þeirri skólaþróun sem fram fer í skólanum og hefur því verið duglegt við að taka á móti skólaáhugafólki sem vill kynna sér starfið sem og að halda fræðsluerindi um skólastarfið víða.

Ný þróunarverkefni í Norðlingaskóla:

  • Samþætting á starfi grunnskóla, leikskóla og frístundar í Norðlingaholti. Veturinn 2013 – 2014 verður unnið að þróunarverkefni sem miðar að því að efla og þróa enn frekar þá faglegu samvinnu sem er nú þegar á milli þessara aðila sem að hluta til vinna allir í sama húsinu. Markmiðið er einnig að þróa faglega vinnu með sveigjanleika að markmiði þar sem nemendur grunnskóla, frístundar og leikskóla blandast í starfi á skipulögðum starfstíma skóla. Í þessu sambandi verður lögð áhersla á að kynnast því sem vel hefur verið gert á þessu sviði, ekki hvað síst utan landssteinanna.
  • Skrefi framar - saman. Í Norðlingaskóla hefur alltaf verið lögð áhersla á að þróa sveigjanlega kennsluhætti í opnum rýmum og mun sú þróunarvinna halda áfram þar sem starfsmenn skólans hafa verið að aðlaga starfs- og kennsluhætti að nýju skólahúsnæði. Í vetur verður skólinn í samstarfi við fjóra skóla, Ingunnarskóla, Sjálandsskóla, Akurskóla og Hraunvallaskóla um þróunarvinnu sem snýr að fjölbreyttum kennsluháttum í opnum rýmum, teymisvinnu og samkennslu árganga. Þróunarverkefnið gengur undir nafninu Skrefi framar - saman og er ætlunin að það standi yfir í 2 – 3 skólaár.
  • GERT (Grunnmenntun efld í raunvísindum og tækni) er samstarfsverkefni Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og ákveðinna skóla, þ.á.m. Norðlingaskóla. Verkefnið er tilraunaverkefni sem snýst um að koma á faglegu samstarfi milli skóla og atvinnulífs. Megináhersla verkefnisins er að efla verk- og tæknimenntun innan grunnskóla. Fjölmörg fyrirtæki koma að verkefninu. Megin áherslur eru m.a. að efla vinnustaðaþekkingu nemenda og kynna markvisst fyrir þeim atvinnulífið. Auk þess að auðga nám nemenda innan skólans með því að fá inn í skólann þekkingu fyrirtækja á sérstökum viðfangsefnum sem skólinn vinnur að. Þá verða kynningar fyrir nemendum á störfum innan verk- og tæknigreina og hvaða námsleiðir liggja að þeim. Allir nemendur í unglingadeild Norðlingaskóla taka þátt i verkefninu og er stefnt að því að fara með nemendur í heimsóknir í fyrirtæki og framhalds- og háskóla, fá kynningar inn í skólann um einstök fyrirtæki, störf og menntun. Einnig að nemendur í 9. og 10. bekk fari i stuttar heimsóknir í fyrirtæki sem þeir hafa áhuga á, kynni sér starfsemina og afli sér upplýsinga um menntun einstakra starfsgreina. Eftir heimsóknir eiga nemendur að kynna fyrir öðrum nemendum fyrirtækið, störfin og menntunina. Sjá enn frekar á slóðinni: http://www.si.is/media/menntamal-og-fraedsla/GERT-SI-2012-NET-litla.pdf 
  • Spjaldtölvur í Norðlingaskóla er samstarfsverkefnis Norðlingaskóla, Upplýsingatæknimiðstöðvar Reykjavíkurborgar, Námsgagnastofnunar, Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, Menntavísindasviðs HÍ og fyrirtækisins Epli.is. Verkefninu er ætlað að meta hvaða áhrif notkun spjaldtölva (iPad) hefur í námi og kennslu í 9. - 10. bekk grunnskóla og á skólaþróun í Norðlingaskóla. Verkefnið hófst um mánaðarmótin janúar/febrúar 2012 og lýkur á árinu 2013. Fyrsti áfangi verkefnisins var metinn vorið 2012 og leiddi matið í ljós að innleiðing tókst að flestu leyti mjög vel. Notkun spjaldtölvanna breiddist út fyrir skólann, til heimilisins, eða annarra íverustaða nemenda, og skapaði þannig forsendur fyrir námsvirkni sem var utan hins formlega námsvettvangs nemenda. Spjaldtölvuvæðingin lagði grunn að auknu aðgengi að námsefni og námstólum, samskiptum og samstarfi, ásamt fjölbreytni í úrvinnslu viðfangsefna í námi. Matið gaf til kynna aukna ánægju, áhuga og sjálfstæði nemenda í námi, meiri einstaklingsmiðun náms, aukna virkni nemenda og betri nýtingu á bekkjartímum. Kennurum fannst að spjaldtölvunotkun ýtti undir faglega þróun og ánægju þeirra í starfi. Foreldrar voru almennt hlynntir spjaldtölvunotkun og fannst að skólinn ætti að fjárfesta áfram í nýrri tækni til náms. Þetta mat má m.a. lesa um í áfangaskýrslu á slóðinni: http://skrif.hi.is/rannum/files/2012/09/Afangaskyrsla_Nordlingaskoli_sept_2012_med_fylgiskjolum.pdf 
  • Opin rými – Valstöðvar og valsvæði. Þróunarverkefnið var unnið 2010 – 2012 og var markmið þess að ræða, undirbúa og þróa leiðir til að nýta opin kennslurými í Norðlingaskóla til einstaklingsmiðaðs náms og skapandi starfs; ásamt því að vinna að þróun námsstöðva og vinnusvæða sem nýst gætu í sveigjanlegu skólastarfi. Þá var unnið að því að koma á valstöðvum í hverjum námshópi sem var ætlað að efla sveigjanleika og fjölbreytni í námi nemenda.

Af formlegum þróunarverkefnum sem unnið var að í Norðlingaskóla á árunum 2005 – 2011 má nefna:

  • Smiðjur í Norðlingaskóla. Á árunum 2008 - 2011 fékk Norðlingaskóli styrk til að þróa útfærslu á smiðjunum þannig að markmiðum aðalnámskrár sé náð með samþættingu verk- og listgreina við aðrar námsgreinar. Afrakstur þessarar þróunarvinnu er hægt að nálgast í grein um smiðjur í Norðlingaskóla í Netlu, veftímariti um uppeldi og menntun sem gefið er út af Menntavísindasviði Háskóla Íslands: http://netla.hi.is/greinar/2010/004/index.htm
  • Leikum og lærum í Norðlingaholti - samstarf við leikskólann Rauðhól. Verkefnið stóð yfir 2008 – 2010 og var markmið þess að flétta saman starf grunn- og leikskóla í nýju vaxandi íbúðahverfi með það að leiðarljósi efla flæði á milli skólanna sem og að efla samvinnu hverskonar, jafnt nemenda, foreldra sem starfsmanna; að vinna markvisst að því að draga fram sérkenni hverfisins með tilliti til staðsetningar í návígi við einstakar náttúruperlur í nærumhverfinu. Auk þess að vinna að skólaþróun og samfélagsþróunina í takt við sýn og áherslur.
  • Útinám í Björnslundi: Það þróunarverefni stóð yfir á árunum 2006 – 2008 og miðaði verkefnið m.a. að því þróa umhverfið í Björnslundi og þær aðferðir sem nýtast mættu til útináms auk þess að safna saman efni til að auðvelda nemendum og kennurum að tileinka sér vinnubrögð við útinám og að halda utan um það efni sem fannst á vefnum og hefur verið og verður unnið að í Norðlingaskóla.
  • Einstaklingsmiðað námsmat (í samvinnu við Ingunnarskóla). Markmið verkefnisins var að skipuleggja og þróa námsmat þar sem byggt er á fjölbreyttum aðferðum, s.s. frammistöðumati, námsmöppum (portfolio), sjálfsmati nemenda, jafningjamati og matssamtölum. Þá var í verkefninu leitast við að þróa marklista (e. scoring rubrics, einnig nefndir sóknarkvarðar) til að nota við námsmat. Verkefnið stóð yfir í 3 ár, 2006 – 2009. 
  • Breytt viðmiðunarstundskrá 2005 – 2006. Það verkefni gekk út á að skoða og prófa breytta tímasetningu og öðruvísi uppbyggða en hingað til hafði tíðkast á kennslustundum og námstíma nemenda. Einnig að búa til heildstæðar vinnulotur fyrir nemendur auk þess að binda ekki þann tíma sem nemendur höfðu til að vinna í ákveðnum námsgreinum. Þess í stað gátu nemendur valið hvenær þeir unnu sitt nám.