Teymisvinna

Samráð í teymum - Verklagsreglur á teymisfundum

Í Norðlingaskóla er samkennsla þar sem árgöngum er kennt saman og allt starfsfólk skólans vinnur í teymum. Nemendum er skipt upp í fjóra námshópa sem eru 1. - 2. bekkur, 3. - 4. bekkur, 5. - 7. bekkur og 8. - 10. bekkur. Hverjum námshópi er stýrt af umsjónarteymi þar sem starfa um það bil sex til átta kennarar, auk sérkennara og stuðningsfulltrúa. 

Ástæðan fyrir áherslu á teymisvinnu starfsfólks er m.a. að þannig nýtist margbreytileiki í hópi starfsfólks nemendum betur, einangrun kennara er rofin, undirbúningur dreifist á fleiri hendur og oftar en ekki nýtist fagmennska hvers og eins betur fyrir heildina. Með þessu móti er aldrei einn kennari með nemendahóp en það eykur sveigjanleika í starfinu og skapar um leið stuðning þegar þörf er á. 

Hvert teymi er með skipulagða samráðsfundi í hverri viku en þar er ákveðið hvernig skipuleggja skuli námið og kennsluna sem framundan er. Teymisvinna í Norðlingaskóla byggir á hugmyndum um dreifða forystu (e. distributed leadership) en slíkir starfhættir eru taldir ýta undir hlutdeild og virkni starfsmanna varðandi skólaþróun. Enginn sérstakur teymisstjóri fer fyrir hverju teymi heldur dreifa eintaklingarnir í teyminu völdum með sér. Þannig er vinnan í teymunum drifinn áfram af sameiginlegri sýn starfsmanna á forgangsröðun verkefna, sértækri þekkingu og áhugahvöt þeirra starfsmanna sem hrinda eiga verkefnum í framkvæmd.Teymin eru skipuð einstaklingum sem hafa bæði faglega sérþekkingu á námsgreinum og einnig sértæka reynslu eða hæfni, bæði faglega og persónulega. Þannig nýtist áhugasvið og sérþekking hvers starfsmanns fyrir allt teymið og um leið fyrir þá nemendur sem teymið kemur að.

Hér að neðan eru nefnd nokkur teymi sem vinna við skólann en sumir starfsmenn eru í fleiri en einu teymi. Skólaárið 2013 - 2014 er skipulag teymanna m.a. eftirfarandi:

  • Í stjórnunarteymi eru skólastjóri, aðstoðarskólastjóri og tveir deildarstjórar.
  • Teymið sem vinnur með 1. og 2. bekk er sett saman af sex til sjö umsjónarkennurum, tveimur sérkennurum og tveimur stuðningsfulltrúum.
  • Með 3. - 4. bekk vinna sex umsjónarkennarar, sérkennari og einn stuðningsfulltrúi.
  • Með 5. - 7. bekk vinna átta umsjónarkennarar, sérkennari og tveir stuðningsfulltrúar.
  • Teymið sem vinnur með 8. - 10. bekk er sett saman af sex umsjónarkennurum, sérkennara og tveimur stuðningsfulltrúum. 
  • Í list- og verkgreinateymi eru sex kennarar (tónlistar-, myndlistar-, textil- og hönnunar- og smíðakennarar).
  • Í íþrótta- og danskennarateymi eru fjórir kennarar.
  • Í stoðteymi eru deildarstjóri sérkennslu, fjórir sérkennarar og náms- og starfsráðgjafi.
  • Skólaliðar í mötuneyti og ræstingum hafa náið samstarf og mynda eitt teymi með yfirmanni mötuneytis og húsverði, samtals tíu starfsmenn.
  • Starfsmenn frístundar mynda eitt teymi. Þar vinna fjórir starfsmenn í fullu starfi en um sextán starfsmenn í hlutastarfi vinna til viðbótar í frístundastarfi sem fram fer síðdegis.

Þegar starfsfólk skólans vinnur að skólaþróunarverkefnum eru myndaðar verkefnastjórnir eða teymi starfsamanna sem fylgja eftir ákveðnum verkefnum samkvæmt símenntunaráætlun skólans. Verkefnastjórnir eru myndaðar með fjölbreyttum hætti og reynt er að byggja þessa teymisvinnu sem mest á hugmyndum um dreifða forystu. Þannig er ávallt leitast við að frumkvæði og áhugahvöt starfsmanna ráði sem mestu um drifkrafinn í skólaþróuninni þ.e. hvaða skólaþróunarverkefni verða fyrir valinu hverju sinni og að hvaða verkefnum hver og einn vill leggja krafta sína í. Á þann hátt velur starfsfólk sér að starfa við tiltekið verkefni vegna sérstaks áhuga á viðfangsefninu eða sérstakrar þekkingar sem viðkomandi telur að nýtist í samstarfinu og sé skólastarfinu til framdráttar. Verkefnastjórnir eru einnig oft skipaðar starfsmönnum þvert á kennarateymin en með því er lögð áhersla á þverfaglega samvinnu. Oft eru verkefnastjórnir einnig myndaðar af stjórnendum þar sem áhersla er lögð á að nýta mannauðinn í skólanum sem best og þá velja stjórnendur einstaklinga til samstarfs vegna sérþekkingar þeirra á viðfangsefninu. Sem dæmi um verkefnastjórnir á skólaárinu 2013-2014 má nefna Grænfánateymi, Björnslundarteymi og samstillingarteymi. 

Það er álit þeirra sem starfa við skólann að teymisvinnan geri allt starfið markvissara og betra fyrir nemendur auk þess sem þetta fyrirkomulag auðveldar alla skólaþróun og úrvinnslu mála og er líka „bara svo miklu skemmtilegra."