Smiðjur

Smiðjutímabil 2013-2014

Eitt af því sem einkennir starfshætti í Norðlingaskóla eru svokallaðar smiðjur. Á árunum 2008-2011 fékk Norðlingaskóli styrk til að þróa útfærslu á smiðjunum þannig að markmiðum aðalnámskrár sé náð með samþættingu verk- og listgreina við aðrar námsgreinar. Afrakstur þessarar þróunarvinnu er hægt að nálgast í grein um smiðjur í Norðlingaskóla í Netlu, veftímariti um uppeldi og menntun sem gefið er út af Menntavísindasviði Háskóla Íslands:
http://netla.hi.is/greinar/2010/004/index.htm 

Smiðjur eru í stöðugri þróun í skólastarfinu og þar ber helst að nefna starfshætti sem snúa að nýbreytni og fjölbreytilegum viðfangsefnum, öflugri samþættingu milli námsgreina, áhugasviði nemenda og kennara ásamt margvíslegri blöndum bæði hvað varðar samvinnu kennara og aldursblöndum á nemendum.

Smiðjurnar eru nokkurskonar verkstæði þar sem nemendur fara í smiðju til starfsmanna skólans og takast á við fjölbreytt og margháttuð viðfangsefni þar sem hverri smiðju er skipt upp í nokkrar verkstöðvar. Í smiðjunum er megináhersla lögð á skapandi vinnu þar sem list- og verkgreinar eru samþættar við aðrar námsgreinar. Lögð er áhersla á að viðfangsefnin vekji áhuga nemenda, séu skemmtileg og nái athygli þeirra. Þannig er það meginmarkmið að til verði flæði (e. flow), en með því ná nemendur að verða hugfangnir af viðfangsefni sínu og skila hámarksafköstum. Til að þetta náist er þess gætt að tímaramminn trufli ekki flæðið og smiðjurnar því yfirleitt tvær samliggjandi lotur tvisvar í hverri viku. 

Skólaárinu í Norðlingaskóla er skipt niður í stundarskrártímabil sem eru frá tveim upp í fimm vikur og innan hvers tímabils eru ákveðnar smiðjur í gangi. Fjöldi smiðjutímabila á hverju skólaári hefur verið misjafn en oftast hafa smiðjutímabilin verið í kringum sex til sjö. Lögð er áhersla á að koma námsþáttum aðalnámskrár inn í smiðjurnar en þess þó gætt að áhugasvið nemenda eigi ávallt sinn sess. Misjafnt er eftir tímabilum hversu aldursblandaðir smiðjuhóparnir eru en hver nemandi tekur a.m.k. þrisvar sinnum yfir skólaárið þátt í smiðjum með öðrum en sínum námshópi. Þannig hefur nemendum ýmist verið blandað saman frá 1.-10. bekk og einnig að hluta til eins til dæmis 1.-4. bekk saman og 5. -10. bekk saman. Þegar árgöngum er blandað saman í smiðjuvinnu er einnig hefð fyrir því að kennurum skólans sé blandað saman. Aldursblöndunin sem fylgir smiðjunum verður til þess að nemendur læra hver af öðrum, þeir eldri kenna þeim yngri og öfugt. Þá kynnast nemendur einnig og hefur það jákvæð áhrif á félags- og námsfærni þeirra. Markmiðið með því að blanda kennurum saman er að styrkja skólabraginn þar sem fleiri kennarar kynnast fleiri nemendum en einungis sínum umsjónarnemendum. Þverfagleg vinna kennara ýtir einnig undir þekkingu og eflir mannauðinn í skólanum, þannig læra kennarar hver af örðum ekki síður en nemendur. 

Reynsla okkar af smiðjum sýnir okkur svo ekki verður um villst að þær veita nemendum tækifæri til að nálgast námsefni á fjölbreyttan og skemmtilegan hátt og vekja þannig áhugahvöt þeirra. Vinna í smiðjum höfðar til mismunandi greinda og færni nemenda og oft hefur það komið fyrir að nemendur hafa gleymt sér í flæði, í hita leiksins. List- og verkgreinar eru tilvaldar til þess að veita nemendum þessa fjölbreyttu nálgun á t.d. raun- og samfélagsgreinar.

Á skólaárinu 2013-2014 var unnið með eftirfarandi viðfangsefni í smiðjum. Smiðjuskýrslur eru unnar í hverri smiðju en þar kemur m.a. fram markmið, kennsluaðferðir, afrakstur og námsmatsaðferðir

 • 1. -2. bekkur: Umhverfið, Bókmenntir, Stærðfræði
 • 1. bekkur og elstu börn leikskólans. Stærðfræðismiðja
 •  3. -4. bekkur:  Vatn, loft og láð, Lína langsokkur, Á vettvangi
 • 5. -7. bekkur:  Heilbrigður lífstíll, Evrópa og Myrkraverk
 • 8. -10 bekkur: Bátar, byssó, brauð og bækur, Frakkland, Gróður jarðar
 • 1. -10. bekkur:  Listasmiðja 19. -21. öldin, Jólasmiðja, Norðlingaleikar

Á skólaárinu 2012 – 2013 voru eftirtaldar smiðjur unnar í námshópunum og hér að neðan má sjá sýnishorn af nokkrum þeirra.

Viðfangsefni:

 • 1. - 2. bekkur: Haustið; Land og þjóð; Skólinn minn
 • 1. bekkur og elstu börnin í leikskólanum Rauðhól: Þjóðsögur og ævintýri
 • 2. bekkur:  Fornsagan um Áslaugu í Hörpu Heimis
 • 3. - 4. bekkur:  VináttaVitavörðurinn; Pizzasmiðja
 • 5. - 7. bekkur:  Norðurlönd; MiðaldirSjómaðurinn
 • 8. - 10. bekkur:  GoðafræðiÍslensk menning; Áhugsviðssmiðja
 • 1. - 4. bekkur:  Umhverfissmiðja - Umhverfið mitt
 • 5. - 10 bekkur:  Umhverfissmiðja - Á grænni grein
 • 1. - 10 bekkur:  Jólasmiðja; Norðlingaleikar

 

Sýnishorn frá skólaárinu 2012-2013:

Eldri smiðjur: