Skóli fyrir alla

Í Norðlingaskóla er svokölluð Salamanc-yfirlýsing höfð í heiðri en í henni segir m.a. að menntun sé frumréttur hvers barns og að skylt sé að gefa því kost á að ná og viðhalda viðunandi stigi menntunar; að börn séu mismunandi og hafi sérstök áhugamál, hæfileika og námsþarfir; að í skipulagi menntakerfis og tilhögun náms beri að taka mið af miklum mun á einstaklingum og þörfum þeirra; að einstaklingar með sérþarfir á sviði menntunar skuli hafa aðgang að almennum skólum og þar beri að mæta þörfum þeirra með kennsluaðferðum í þeim anda að mið sé tekið af barninu; að almennir skólar séu virkasta aflið til að sigrast á hugarfari mismununar. Norðlingaskóli er því skóli sem vinnur með nemendur hverjar svo sem sérþarfir þeirra eru. Reyndar telur starfsfólk skólans að allir okkar nemendur séu með sérþarfir sem þeir eiga rétt á að unnið sé með enda er í skólanum unnið að því að námið sé við hæfi hvers og eins.

Í Norðlingaskóla er reynt að vinna að því að skólabragurinn mótast af þeirri sýn að það sé eðlilegt og jafnvel eftirsóknarvert að ekki séu allir eins. Talið er mikilvægt að hver nemandi fái að njóta sín miðað við getu sína, sérstöðu, þarfir, áhuga og styrkleika. Ríkjandi eru þau viðhorf að skólinn sé vinnustaður þar sem starfið á að einkennast af samvinnu, vellíðan, gleði, öguðu frjálsræði, lýðræði, notalegum vinnuaðstæðum, fjölbreytni og sveigjanleika. Lögð er áhersla á mikla samvinnu meðal starfsfólks, mikla faglega umræða og vilja til nýbreytni. Skólaþróun er talin eðlilegur hluti af starfinu og stöðugt mat á skólastarfinu er talið mikilvægt.

Skólastarfið á þannig að taka mið af nemendunum sem eru í skólanum en nemendur eiga ekki að passa inn í ákveðna gerð af skólastarf.