Skólaboðunardagur

Fyrsti skóladagur á hverju hausti við Norðlingaskóla er svokallaður skólaboðunardagur en þá heimsækja starfsmenn skólans alla nemendur skólans og boða þá í skólann. Starfsmenn skólans skipta heimilunum á milli sín og tveir starfsmenn heimsækja hvert heimili.

Tilgangurinn með skólaboðunardeginum er m.a. sá að samskipti skólans og heimilanna eigi að virka í báðar áttir. Þannig er það undirstrikað að starfsmenn skólans séu líka færanlegir, það þurfi ekki alltaf að vera þannig að foreldrarnir komi í skólann heldur geti það líka verið á hinn veginn. Með þessu móti er lögð áhersla á að þessi samskipti geti og eigi að vera gagnvirk.

Í Norðlingaskóla er gert ráð fyrir því að foreldrar taki virkan þátt í skólastarfi barna sinna á þeim forsendum að þeir séu sérfræðingar í þörfum þeirra. Þegar sú sérfræði er samtvinnuð þeirri sérfræðiþekkingu sem starfsfólks skólans hefur á námi og kennslu, eru miklar líkur á því að starfið verði gjöfult og árangursríkt fyrir nemendur. Að mati starfsfólks skólans er það afar mikilvægur þáttur í samstarfi þessara tveggja lykilaðila, skólans og heimilana, að hitta nemendur og foreldra líka á þeirra heimavelli og skapa þannig tækifæri til að ræða málefni barnanna og skólastarfið á heimilislegan og notalegan hátt. Þá er ljóst að skólaboðunardagurinn er mikilvægur þáttur í því að gera nemendur öruggari í samskiptum við starfsfólk skólans sem og þátttöku í starfi skólans sem leitast sífellt eftir því að líta á sig sem samfélag en ekki stofnun.