Samráðsdagar

Norðlingaskóla eru samráðsdagar þrisvar sinnum á skólaárinu, einn á haustönn (í október), einn við annaskil í janúar og einn að vori (í júní) en þá hittast nemendur, foreldrar og kennarar til skrafs og ráðagerða og hafa með sér samráð um áherslur í skólagöngu hvers nemanda. 

Í skólanum er litið svo á að samráðsdagar séu með mikilvægustu dögum skólaársins. Á samráðsdögum er farið yfir sterkar hliðar barnsins, áhugamál, námslega stöðu, væntingar, líðan og hegðun svo eitthvað sé nefnt. Undanfari þessara samráðsfunda er námsmat og matssamtöl sem kennarar hafa tekið einslega við nemendur sína. Helstu niðurstöður úr matssamtölunum, ásamt vitnisburðarblöðum eru send heim til upplýsinga fyrir foreldra. Heimafyrir ræða síðan foreldrar við barn sitt þau atrið sem fram hafa komið í matssamtalinu. Þegar þessir samherjar hittast svo í samráðssamtalinu er framangreind umræða lögð til grundvallar þegar ákveðið er á hvað skuli leggja áherslu í áframhaldandi vinnu nemandans í skólanum. 

Það má því segja að formleg samskipti eiga sér stað á samráðsdögum. Með formlegum samskiptum er átt við að gert sé ráð fyrir að foreldrar sinni þeim. Ef foreldrar sjá sér ekki fært að mæta á samráðsfundi á tilsettum tíma er fundin leið sem hentar foreldrum þannig að tryggt sé að upplýsingum sé komið á framfæri og þetta mikilvæga samráð getir farið fram enda er það grunnur að allri markmiðssetningu og áætlanagerð fyrir viðkomandi nemanda.