Samkennsla

Í Norðlingaskóla fer fram samkennsla árganga en samkennsla er það þegar aldursblönduðum námshópi þar sem tveimur eða fleiri árgöngum er kennt saman í einum bekk án varanlegrar aðgreiningar eftir aldri eða námsgetu. Markmiðið er að hver nemandi fái nám og kennslu við sitt hæfi jafnframt því að nemendahópurinn eigi samleið sem hópur eða bekkjarheild.

Nemendur í samkennsluhópi eru á misjöfnum aldri, búa yfir misjöfnum þroska og getu og læra að það er eðlilegt að vinna misjafnlega hratt og hafa margvísleg áhugasvið og fjölbreytta færni. Nemendur eiga að vera að fást við mismunandi námsmarkmið skv. námskrá og verða að læra að vinna sjálfstætt og hjálpast að. 

Í samkennsluhópi verður einstaklingurinn sýnilegri og það er mjög algengt að það skapist góður námsandi, nokkurskonar systkinaandi. Þar fær nemandinn tækifæri til að kynnast fleirum, er bæði eldri og yngri í hópnum og því festast nemendur síður í ákveðinni stöðu í hópnum sem er síbreytilegur. 

Samkennsla kallar á námskipulag sem byggir á einstaklingsmiðuðu námi og sjálfstæðum vinnulotum nemenda. Við þær aðstæður eiga nemendur auðveldara með að nýta sér „flæði" – verða hugfangnir af viðfangsefninu og skila hámarksafköstum. Í þetta ástand er erfitt að komast ef alltaf er verið að búta sundur vinnutímann og skipta honum upp í fyrirfram ákveðin viðfangsefni sem allir eiga að vinna að á sama tíma. Að mati starfsfólks Norðlingaskóla ýtir samkennsla undir slíkt. 

Hugmyndir um nám sem félagslega hugsmíði gera ráð fyrir að samvinna barna innbyrðis gegni ekki síður mikilvægu hlutverki í námi en samvinna barna og fullorðinna. Samkvæmt þessum kenningum er litið á nám sem félagslega athöfn þar sem samvinna og samspil við aðra einstaklinga gegnir lykilhlutverki. 

Rannsóknir benda til að nám og starf nemenda í aldursblönduðum hópum hafi örvandi áhrif á félagslegan þroska þeirra og efli forystu og félagslega ábyrga hegðun svo sem að hjálpast að, deila, skiptast á, taka tillit til annarra, segja satt o.s.frv.Rannsóknir benda einnig til að í aldursblönduðum nemendahópum sé auðveldara að skapa bekkjaranda sem einkennist af samhjálp, umburðarlyndi og umhyggju en til að svo megi vera verður að skipuleggja námsaðstæður þannig að kostir aldursblöndunarinnar fái að njóta sín. 

Í samkennsluhópum læra nemendur félagsleg samskipti þar sem yngri börn læra að þiggja hjálp frá eldri börnum, eldri börn læra að hjálpa yngri börnum en þetta leiðir til félagsmynsturs sem styrkir ábyrgð, forystu og félagslega færni. Sá sem kann kennir þeim sem þarf að læra. Þannig þjálfast nemendur í að eiga námsleg samskipti við eldri og yngri nemendur, læra að veita og þiggja aðstoð frá bekkjarfélögum og átta sig á því að þeir geta lært af bekkjarfélögum sínum og geta líka miðlað til annarra. 

Í Norðlingaskóla eru það oftast tveir árgangar eða þrír sem mynda samkennsluhópana en alloft yfir skólaárið er samkennsluhópunum breytt í smiðjum og tvisvar á ári eru nemendur í 1. – 10. bekk að vinna saman í samkennsluhópum.