Námsval - Samvinna

Námsval
Eitt af því sem einkennir námið og kennsluna í Norðlingaskóla er að lögð er áhersla á að nemendur hafi fjölbreytt val um námsefni, námstengd verkefni og leiðir til að vinna að námsmarkmiðunum sem þeir hafa sett sér. Valið er útfært með mismunandi hætti eftir námshópum og námsgreinum.  Tilgangurinn með því er að auka fjölbreytni og sveigjanleika, auðvelda sjálfsnám nemendanna og skapa um leið aukið svigrúm til að sníða námið að áhuga og þörfum hvers nemanda. Stundum er það nokkurs konar hringekja sem heldur utan um valið.

Samvinna nemenda
Eitt af því sem er hvað mikilvægast að hafa á valdi sínu í nútíma þjóðfélagi er samskiptafærni og einnig að vera skipulagður og sveigjanlegur í samvinnu við aðra. Því er það afar mikilvægt að þjálfa nemendur í þessum færniþáttum. Nám nemenda er því að hluta til skipulagt þannig að það fer fram í margskonar hópavinnu. Í hópavinnu þjálfa nemendur þætti eins og að vera skipulagðir, geta miðlað til annarra, kunna að skipta með sér verkum, nýta kosti hvers og eins til hagsbóta fyrir heildina, taka tillit til annarra og læra að bera virðingu fyrir mismunandi skoðunum svo eitthvað sé nefnt. Það er því nauðsynlegt að samvinna nemenda sé skipulögð á sem margbreytilegastan hátt, í stórum og litlum hópum sem settir eru saman á sem fjölbreyttastan hátt.

3

1

2