Námsmat í Norðlingaskóla

 

Í lögum um grunnskóla segir um námsmat: Mat á árangri og framförum nemenda er reglubundinn þáttur í skólastarfi. Tilgangur þess er að fylgjast með því hvernig nemendum tekst að mæta markmiðum aðalnámskrár og ná námsmarkmiðum sínum, örva nemendur til framfara og meta hverjir þurfa á sérstakri aðstoð að halda. Nánari ákvæði um námsmat skulu sett í aðalnámskrá grunnskóla (Lög um grunnskóla, 27. gr., 2008).

Í aðalnámskrá grunnskóla segir um námsmat: Mat á hæfni og framförum nemenda er reglubundinn þáttur í skólastarfi, órjúfanlegur frá námi og kennslu. Megintilgangur námsmats er að leiðbeina nemendum um námið og hvernig þeir geti náð markmiðum þess. Með námsmati er fylgst með því hvernig nemendum tekst að ná almennum hæfniviðmiðum aðalnámskrár, stuðlað að námshvatningu, nemendur örvaðir til framfara og metið hverjir þurfa á sérstakri aðstoð að halda.

Námsmat á einnig að veita nemendum og foreldrum þeirra, kennurum, viðtökuskólum og skólayfirvöldum upplýsingar um námsgengi nemenda, hæfni þeirra, vinnubrögð og framfarir, sem m.a. má hafa að leiðarljósi við frekari skipulagningu náms (aðalnámskrá grunnskóla, 2011).

Einstaklingsmiðað námsmat í Norðlingaskóla
Í Norðlingaskóla er skólaárinu skipt upp í tvær annir. Fyrri önnin er frá skólabyrjun í ágúst og fram í janúar. Seinni önnin er frá janúar og til skólaloka í júní. Formlegu lokamati til nemenda og forráðamanna þeirra er skilað á samráðsdegi við annarlok í janúar og júní. Á samráðsdegi koma saman nemendur, forráðamenn og kennarar, í formlegu samtali, þar sem farið er yfir önnina, líðan, markmið, væntingar og lokamat. Á þessum samráðsdegi er skriflegt lokamat undirritað af þessum aðilum og er þar með orðið formlegt. Sjá enn frekar upplýsingar um samráðsdaga hér á heimasíðunni en auk þeirra sem fyrr eru nefndir er samráðsdagur í október til að fara yfir og ræða skólabyrjunina og fyrstu vikur skólaársins.

Í Norðlingaskóla byggist námsmat á fjölbreyttum aðferðum, leiðsagnarmati, sjálfsmati nemenda, frammistöðumati, jafningjamati, matssamtölum, stundum safnmöppumati (portfolio) og hefðbundnum prófum svo eitthvað sé nefnt. Lögð er áhersla á símat, þ.e. að stöðugt fari fram mat og endurgjöf til nemenda sem ætlað er að auðvelda þeim, foreldrum þeirra og kennurum að skipuleggja áframhaldandi nám hvers nemanda.

Þrisvar á vetri eru matssamtöl en tilgangur þeirra og markmið er að meta m.a. líðan, námslega stöðu nemandans, áhugamál og sterkar hliðar, sem og að setja fram markmið og væntingar. Stuðst er við ákveðna gátlista eða eyðublöð (sjá á heimsíðu skólans undir samráðsdagar).

Það mikilvægasta sem námsmati er ætlað að segja til um er hvaða námsmarkmiðum hver nemandi hefur náð og hvaða færni og leikni hann hefur tileinkað sér á námstímanum. Þess vegna er námsmati í Norðlingaskóla skilað til nemanda þannig að þau markmið sem hver nemandi hefur sett sér í hverri námsgrein eru birt á matsblaði og síðan fær nemandinn einkunn sem segir til um það hversu stórum hluta af markmiðum hann hefur náð. Þá fær hver nemandi umsögn í öllum greinum sem segir nákvæmar til um hvaða markmiðum nemandinn hefur náð og hvað hann þarf að skoða betur. Námsmatsblöðin eru því einstaklingsmiðuð og mjög mismunandi eftir nemendum. Sérstök áhersla er á að meta skólafærni, félagsfærni og námsfærni.

Námsmat Norðlingaskóla, útfærsla þess og fyrirkomulag er í stöðugri þróun og verður skoðað sérstaklega samhliða innleiðingu nýrrar aðalnámskrá grunnskóla.