Einstaklingsmiðun

Í Norðlingaskóla er lögð áhersla á einstaklingsmiðun í námi en með því er átt við að starf skólans taki mið af því að börnin eru misjafnlega þroskuð, af margbreytilegum uppruna og hafa öðlast margháttaða og misjafna leikni, reynslu og þekkingu áður en þau hefja nám í grunnskóla. Einnig er mjög misjafnt hverjar eru sterkar og veikar hliðar þeirra. Skólinn þarf því að búa þeim skilyrði svo þau megi á eigin forsendum dafna og þroskast með því að stuðla að alhliða þroska þeirra, veita þeim öryggiskennd, sjálfstraust og jákvæða sjálfsmynd. Þetta gerir skólinn með því að sérhver nemandi fái námsaðstæður og viðfangsefni við sitt hæfi. Þannig á skólastarfið að koma til móts við ólíkar þarfir, getu, námsstíl og áhuga allra nemenda.

Í skólanum er m.a. stuðlað að einstaklingsmiðun í námi með því að hver og einn nemandi gerir með kennara sínum einstaklingslegar námsáætlanir sem við köllum áform ýmist til einnar viku í senn eða tveggja. Þar setja nemendur sér markmið og ákveða hvaða leiðir og námsefni þeir geta notað til að ná settu marki. Einnig er lögð áhersla á að hver nemandi vinni með áhugasvið sitt en um þá vinnu er gerður sérstakur námssamningur. Þá vinna nemendur ákveðinn hluta vikunnar í svo kölluðum smiðjum en þær eru verkstæði þar sem nemendur tileinka sér bókleg markmið með verklegum leiðum. Valfrelsi og nemendalýðræði er afar mikilvægt sem og samvinnuverkefni þar sem mismunandi færni og geta nemenda nýtur sín til hagsbóta fyrir hópinn.

Í Norðlingaskóla er ríkjandi það viðhorf að margbreytileiki sé kostur og að það eigi að búa þannig að nemendum að þeim líði sem allra best og að starfsfólk skólans hafi ævinlega trú á þeim. Í skólanum er litið svo á að jákvæðni sé það eina sem vinnur á neikvæðni.