Áhugasvið

Í Norðlingaskóla er lögð áhersla á að nemendum gefist tími til að vinna með sínar sterku hliðar. Það er gert með því að í viku hverri skipuleggja nemendur tíma til að vinna með áhugasvið sitt, ýmist einstaklingslega eða í litlum hópum eftir löngun hvers og eins. Áhugahvötin er mikil orkulind enda eru nemendur góðir í því sem þeir hafa áhuga á og verða einnig góðir í því sem þeir fá áhuga fyrir.

Um vinnuna við áhugasviðið eru gerðir svo kallaðir áhugasviðssamningar en þar setur nemandinn fram hvaða markmiðum hann ætlar sér að ná og með hvaða leiðum hann hyggst gera það. Þá er og samið um það hvaða bjargir kennarinn þarf að tryggja honum og einnig hvenær og með hvaða hætti nemandinn ætlar sér að skila áhugasviðsvinnu sinni. Oftar en ekki er gert ráð fyrir því að nemandi kynni áhugasviðsvinnu sína fyrir öðrum nemendum, starfsfólki og/eða foreldrum og dæmi eru um það að nemendur hafi skilað vinnu sinni með kynningum fyrir leikskólabörn á Leikskólanum Rauðhóli. Þannig nýtist áhugasviðið einnig til að þjálfa nemendur í jafningjafræðslu.

Dæmi um viðfangsefni í áhugasviðsvinnu:

 • Gerð dansprógrams
 • Hönnun hundafata
 • Kennsluefni um mótorkross
 • Spurningaþáttur
 • Prjóna
 • Teiknibækur
 • Uppskriftarbækur
 • Nákvæm úttekt á völdum fótboltastjörnum
 • Origami
 • Leira
 • Sauma
 • Þjálfun í að spila lög eftir Bubba Morthens
 • Glærusýningar
 • Video myndbönd
 • Dagatal í Publisher
 • Mála listaverk á striga
 • Búa til spil
 • Smíða
 • Tilraunir
 • Stuttmyndagerð
 • Vefsíðugerð
 • Tálga
 • Fischertechnik
 • Púsla
 • Tónlist
 • Hljómsveit