Áform - einstaklingsmiðuð námsáætlun

Í Norðlingaskóla gera allir nemendur skólans einstaklingsbundnar námsáætlanir sem kölluð eru áform. Það er mismunandi eftir námshópum hvort þær eru gerðar vikulega eða hálfsmánaðarlega. Einnig er mismunandi í námshópunum hvaða dagar vikunnar eru áformsdagar.

Í flestum hópum í 1. - 7. bekk fara áformsdagar þannig fram að nemendur hitta umsjónarkennara sína og fara yfir hvernig gekk í síðustu viku og ákveða hvað þeir ætla að gera í komandi viku. Farið er yfir hvaða markmiðum nemendur ætla að ná og skoðað hvort það eru einhver atriði sem þarfnast útskýringa. Svo að þetta megi verða sem markvissast hafa nemendur aðgang að námsáætlunum í greinunum þar sem fram koma markmið og leiðir og hvaða námsefni megi nota til að ná þeim. Áformsbók hvers nemanda er því nokkurs konar grunngagn sem heldur utan um námsferil hans og er afar mikilvæg svo að foreldrar geti fylgst með námsframvindu barna sinna. Það sem nemandi áformar að gera getur hann bæði unnið heima og í skólanum. Áhersla er lögð á að nemandi þurfi ekki að vinna heima ef hann er duglegur í skólanum.

Í 8. - 10. bekk áformar umsjónarkennari með nemandum sínum eftir þörfum en þó ekki sjaldnar en einu sinni í viku. Nemendur geta áformað í einu fagi til þriggja vikna og öðru til einnar viku. Það fer eftir verkefnum og einstaklingum.

Hér eru dæmi um hvernig þessi áform líta út í námshópunum.