Starfshættir

Starf í Norðlingaskóla grundvallast á því lífsviðhorfi að hverjum einstaklingi skuli búin námsskilyrði svo hann megi, á eigin forsendum, þroskast og dafna og útskrifast úr grunnskóla sem sjálfstæður, sterkur og ekki síst lífsglaður einstaklingur. Árgöngum er kennt saman en samkennsla árganga stuðlar m.a. að aukinni félagsfærni nemenda og auðveldar að hver nemandi fari á sínum hraða á grunnskólagöngu sinni. 

Áhersla er lögð á að nemendum líði vel og að nám og starf sérhvers þeirra miðist við þarfir hans og getu sem og sterkar hliðar. Byggt er á einstaklingsmiðuðum starfsháttum og samvinnu hvers konar. Mikil áhersla er lögð á vinnu í smiðjum en þar eru list- og verkgreinar samþættar annarri vinnu nemenda. 

Norðlingaskóli er fyrir alla nemendur skólahverfisins, án aðgreiningar, þar sem engum er ofaukið og allir velkomnir og litið er á að margbreytileiki sé kostur. 

Allt starfsfólk skólans vinnur í teymum enda stuðlar slíkt fyrirkomulag að því að margbreytileikinn í hópi starfsfólks nýtist nemendum.

Norðlingaskóli er í nánum tengslum við samfélagið sem hann er hluti af, m.a. með öflugu samstarfi milli heimilanna og skólans þar sem sérþekking foreldra á börnum sínum og sérþekking starfsfólks á skipulagi skólastarfs fléttast saman. 

Þá tekur starf Norðlingaskóla mið af því menningarlega og náttúrulega umhverfi sem hann er hluti af og vinnur að því að þeir sem búa í hverfinu nái saman og upplifi sig sem heildstætt samfélag.