Stoðþjónusta

Bæklingur klúbbaskólinn

Stefnan
Í núgildandi lögum um grunnskóla (nr. 91/2008) segir að grunnskólinn skuli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins.

Í 17. grein laganna segir að nemendur sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi.

Lög og stefnumótun í skólamálum eiga sér ríka stoð í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að svo sem í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem nú hefur verið lögfestur á Íslandi, í Salamancayfirlýsingunni og í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í Barnasáttmálanum er lögð áhersla á að börn eigi að njóta sérstakrar verndar umfram fullorðna um leið og viðurkennt er að þau eru sjálfstæðir einstaklingar með sjálfstæð réttindi. Í Salamanca yfirlýsingunni er lögð mikil áhersla á kennslu án aðgreiningar og mikilvægi almennra skóla án aðgreiningar í að sigrast á fordómum og móta viðhorf í átt að samfélagi án aðgreiningar. Samningur Sameinuðu þjóðanna leggur megináhersla á mannréttindi og mannlega fjölbreytni og tækifæri fatlaðs fólks til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu, þess vegna er ekki talað um sérþarfir heldur um aðlögun umhverfisins og stuðning sem einstaklingnum er nauðsynlegur til að ná árangri. Í Samningnum er megináherslan á að hindranir liggi í umhverfinu en ekki hjá einstaklingnum og að með aðstoð við að komast yfir eða framhjá þessum hindrunum verði einstaklingar sem búa við fötlun eða skerðingu mun eðlilegri hluti af samfélaginu en ef stöðugt er verið að reyna að lagfæra einstaklinginn.

Í Norðlingaskóla er litið svo á að öll kennsla eigi að vera sérkennsla, enda skuli reynt eftir fremsta megni að tryggja að námsaðstæður og námsefni henti ávallt getu og áhuga hvers og eins nemanda. Í þessu tilliti eru því allir kennarar sérkennarar og í raun ekki þörf fyrir hugtakið sérkennsla, enda hafa allir nemendur sínar þarfir og áhugamál.

Skipulagið
Til að ná því markmiði að veita hverjum og einum nemanda kennslu við hæfi, leggur skólinn metnað sinn í að hafa yfir að ráða góðum og breiðum hópi fagfólks. Hlutverk þessa fólks er að taka þátt í teymisvinnu og vera þátttakendur í aðlögun námsaðstæðna og námsefnis fyrir hvern og einn nemanda eða nemendahópa. Þau vinnubrögð eru í anda nýjustu hugmynda fræðimanna á þessu sviði sem vilja líta á alla sem sérstaka, og að auk þess að styðja nemanda í námi sínu þurfi að skoða skipulag og umhverfi og aðlaga það að þörfum einstaklinganna sem í því starfa.

Allir starfsmenn skólans bera ábyrgð á að framfylgja stefnu Norðlingaskóla í skóla fjölbreytileikans. Í hverju umsjónarteymi starfar sérkennari sem vinnur með öðrum starfsmönnum teymisins að skipulagi náms og kennslu fyrir alla nemendur í þeim námshópi. Sérkennarar mynda síðan ásamt deildarstjóra sérkennslu og náms – og starfsráðgjafa stoðteymi skólans. Stoðteymið heldur sérstaklega utan um stoðþjónustuna og er öðrum kennurum til ráðgjafar svo og aðstandendum þegar það á við. Gott samstarf við foreldra er í þessum málaflokki sérlega mikilvægt, reglulega eru haldnir teymisfundir með fjölskyldum einstakra nemenda og þá eru gjarnan kallaðir til sérfræðingar sem tengjast nemandanum utan skólans.

Heilsuvernd skólabarna
Hjúkrunarfræðingur er í 60 % starfi við skólann og er hlutverk hans að vinna að heilsueflingu og forvörnum í skólanum í góðu samstarfi við kennara og foreldra.

Náms – og starfsráðgjöf
Starfandi er við skólann náms – og starfsráðgjafi í fullu starfi og er hlutverk hans að styðja nemendur svo að skólagangan nýtist sem allra best, að þeir fá aðstoð til að átta sig á eigin hæfileikum og áhugamálum og setja sér markmið. Meginmarkmið náms- og starfsráðgjafar í grunnskólum er að veita nemendum faglega þjónustu og ráðgjöf í málum sem tengjast námi þeirra, framtíðaráformum og samskiptum og líðan í skólanum.

Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts
Norðlingaskóli hefur aðgang að fjölskyldu– og skólaþjónustu Þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts og starfsmönnum hennar s.s. sálfræðingi. Gott er að geta leitað eftir ráðgjöf sálfræðings þegar náms- eða aðlögunarerfiðleikar koma upp hjá nemendum á grunnskólaaldri bæði fyrir forráðamenn og starfsfólk skólans.

Dæmi um slíka ráðgjöf geta verið:

  • Barnið á við námserfiðleika að stríða í einni námsgrein eða fleirum. Það er mikilvægt að greining fari fram snemma á skólagöngu barnsins til að koma í veg fyrir alvarlegan námsvanda.
  • Samskiptaörðuleikar barns við önnur börn, foreldra eða kennara.
  • Barnið verður fyrir óeðlilegri stríðni eða áreitni innan eða utan skólans.
  • Kvíði, kjarkleysi, óróleiki, reiðiköst eða önnur yfirdrifin tilfinningaleg viðbrögð hjá barninu.
  • Mætingarerfiðleikar, svo og breytingar á aðstæðum og áföll sem valda erfiðleikum í skóla.

Það eru oftast kennarar í samráði við foreldra sem vísa nemendum til sálfræðideildar. Foreldrar geta einnig haft frumkvæði að því að kennari vísi nemanda til sálfræðideildar. Foreldrar geta fengið ráðgjöf í gegnum síma ef þeir eru í vafa um hvort leita eigi eftir sálfræðiaðstoð fyrir barnið. Þeir geta einnig pantað viðtal hjá sálfræðingnum. Skilyrði fyrir því að sálfræðingur taki mál til úrlausnar er að umbeðnar upplýsingar í tilvísunarblaði séu veittar. Foreldri getur útfyllt tilvísunarblað í viðtali eða getur fengið eyðublað sent heim.

Æskilegt er að foreldrar hafi samráð við umsjónarkennara þegar þeir hyggjast leita eftir sálfræðiaðstoð því sálfræðingar hafa samráð við starfsmenn skóla við forgangsröðun mála sem tekin eru til úrvinnslu. Rétt er að benda foreldrum á að mikilvægt er að leita sérfræðiaðstoðar áður en smávægilegir erfiðleikar verða að óviðráðanlegu vandamáli.

Klúbbaskólinn
Í Norðlingaskóla er starfræktur svokallaður Klúbbaskóli. Tilgangur námskeiða Klúbbaskólanum er að koma á móts við þá nemendur sem þurfa meira verknám og meiri fjölbreytni í nami sínu en aðrir nemendur. Fjöldi námskeiða og innihald er skipulagt í samræmi við sérþekkingu starfsmanna og reynslu þeirra. Námskeiðin eru mismunandi að lengd og fjöldi í hverjum hópi getur verið frá fjórum og upp í tíu. Umsjónarkennari og/eða sérkennari í teymi sækir um fyrir nemanda í samráði við forráðamenn.
Náms- og starfsráðgjafi og deildarstjóri stoðþjónustu bera ábyrgð á starfsemi Klúbbaskólans.

Stöðugt í þróun
Stefna skólans um skipulag náms og kennslu fyrir alla nemendur er í stöðugri endurskoðun því starfsfólk skólans er sífellt að leita bestu leiða til að ná markmiðum skólans um að útskrifa sjálfstæða, sterka og lífsglaða nemendur. Auk þessa faglega metnaðar skólans tekur hann mið af breytingum sem verða vegna innleiðingar nýrrar aðalnámskrár og nýrrar stefnu Reykjavíkurborgar um skóla án aðgreiningar.