Saga skólans

Norðlingaskóli hóf göngu sína í ágúst 2005. Hann er staðsettur í Norðlingaholti í Reykjavík, mitt á milli Elliðavatns og Rauðavatns. Norðlingaskóli er heildstæður grunnskóli fyrir 300 - 400 nemendur í 1. - 10. bekk. Í skólanum eru núna nemendur í 1. - 10. bekk og haustið 2013 eru rúmlega 480 nemendur skráðir í skólann.

Fyrsta starfsár skólans voru nemendur í 1. - 6. bekk í skólanum. Í byrjun fór starf skólans fram í færanlegum skólastofum, skálum, sem reistir voru í útjaðri skólalóðar en skólahúsið stendur nú á Klapparholti við Árvað þar sem um árabil stóðu hesthús. Stjórnunarálmu og skólastofum, ásamt miðrými og tengigöngum, voru gefin nöfn sem tengjast Norðlingaholti og nánasta umhverfi þess. Eru það nöfn eins og Hólar, Ystu-Hólar, Strengur, Mörk, Hvammur, Bjalli, Rjóður, Vað, Bugða, Endi, Horn, Lundur, Skjól, Þinganes, Klapparholt, Myllutjörn, Sandvík, Austurvík, Suðurvík, Glymur og fleira.  Í nýbyggðu skólahúsnæði er þessari nafnahefð viðhaldið.

Þegar hönnun nýja skólahúsnæðisins hófst var stofnaður svokallaður hönnunarhópur sem vann að hugmyndum um innra og ytra starf skólans. Skilaði hópurinn af sér skýrslu sumarið 2006. Í framhaldi settu þrjár arkitektastofur fram hugmyndir um skóla og var ein þeirra valin til frekari hönnunar. Eru það arkitektar frá Hornsteinum sem unnu hana.