Nemendavernd

Í stefnu Norðlingaskóla kemur meðal annars fram að lögð er sérstök áhersla á að nemendum líði vel og er allt starfsfólk skólans vakandi yfir velferð nemenda. Sérstaklega er gætt að hegðun nemenda sem gæti bent til þess að þeir þurfi sérstaka aðstoð. Hegðun sem þarfnast athugunar birtist gjarnan sem:

  • vanræksla við skólanám
  • andleg vanlíðan
  • einelti
  • fjarvistir frá skóla
  • ofbeldi

Nemendaverndarráð Norðlingaskóla starfar samkvæmt reglugerð um nemendaverndarráð í grunnskólum. Í nemendaverndarráði skólans eiga sæti: skólastjóri og/eða aðstoðarskólastjóri, deildarstjóri sérkennslu, skólahjúkrunarfræðingur, fulltrúi sérfræðiþjónustu sveitarfélags og náms- og starfsráðgjafi. Einnig geta fulltrúar frá félagsþjónustu sveitarfélags og barnaverndaryfirvöldum tekið þátt í starfi nemendaverndarráðs þegar tilefni er til. Nemendverndarráðsfundir eru haldnir í hverri viku; aðra hverja viku fyrir eldri nemendur og hina fyrir yngri nemendur.

Hlutverk nemendaverndarráðs er: að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur varðandi skólaheilsugæslu, náms- og starfsráðgjöf og sérfræðiþjónustu og vera skólastjóra til aðstoðar um framkvæmd áætlana um sérstaka aðstoð við nemendur. Samstarfið getur verið bæði vegna einstakra nemenda og forvarnarstarfs.
Nemendaverndarráð fjallar um sérstök úrræði fyrir einstaka nemendur eða nemendahópa og metur hvaða viðbótarupplýsinga er þörf og boðar á sinn fund umsjónarkennara og foreldra svo og aðra aðila sem tengjast málinu ef þörf krefur.
Þegar ákvörðun hefur verið tekin um nauðsynlegar ráðstafanir, umbætur eða aðgerðir getur skólastjóri falið aðilum innan ráðsins að fylgja málinu eftir ef nauðsyn krefur.

Hlutverk umsjónarkennara er: að vísa til skólastjóra/nemendaverndarráðs málum nemenda sem þurfa á sérstakri aðstoð að halda vegna fötlunar, sjúkdóms, námslegra, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika.
Umsjónarkennari fylgist náið með námi, þroska og líðan nemenda sinna; aðstoðar nemendur eftir föngum og gefur þeim ráð í persónulegum málum; hefur samband við forráðamenn nemenda og stuðlar að góðu samstarfi skóla og heimila; vísar til skólastjóra þeim málum sem falla undir nemendaverndarráð og fylgist með framgangi þeirra.
Ávallt skal upplýsa foreldra um að máli barna þeirra sér formlega vísað til nemendaverndarráðs.

Hlutverk nemenda er: að stunda nám sitt af kostgæfni og fara eftir skólaviðmiðum.

Hlutverk foreldra/forráðamanna er: að gæta hagsmuna barna sinna; vera ábyrgir fyrir framkomu, skólasókn og heimavinnu barna sinna og vera vakandi yfir líðan, námsgengi og félagslegri stöðu barna sinna.