Móttaka nemenda með sérþarfir

Móttökuáætlun nemenda með sérþarfir

Í 9. gr. reglugerðar um nemendur með sérþarfir nr. 585/2010 segir:

Auk almennrar móttökuáætlunar samkv. 16. gr. laga um grunnskóla skulu grunnskólar útbúa móttökuáætlun fyrir nemendur með sérþarfir. Í slíkri áætlun skal m.a. gera grein fyrir samstarfi innan skólans um skipulagi kennslunnar, aðbúnaði, aðstöðu, notkun hjálpartækja, skipulagi einstaklingsnámskrá, kennsluháttum og námsmati, hlutverki umsjónarkennara, sérkennara og annarra fagaðila innan skólans og samstarfi við foreldra. Tilgreina skal áform skólans um stuðning við nemendur með sérþarfir við nemendur til félagslegrar þátttöku og virkni í skólasamfélaginu, svo sem í félagslífi og tómstundastarfi skólans. Í slíkri áætlun skal einnig gera grein fyrir samstarfi við aðila utan skólans.

Móttökuáætlun fyrir nemendur með sérþarfir

Í Norðlingaskóla er almenn áætlun um móttöku nýrra nemenda auk þess er til sérstök móttökuáætlun vegna nemenda með annað móðurmál en íslensku. Í almennu áætluninni er fjallað um almenn atriði við að byrja í nýjum skóla, sú áætlun gildir um alla nemendur í skóla án aðgreiningar, en til viðbótar þarf að hafa eftirfarandi í huga varðandi nemendur með sérstakar þarfir.

 •   Þegar nemandi með skilgreindar sérþarfir innritast í Norðlingaskóla hitta foreldrar og nemandi deildarstjóra stoðþjónustu, sem hefur umsjón með móttöku nemenda með sérþarfir, og farið er yfir einstaklingslegar þarfir nemandans og það hvernig skólinn bregst við þeim.
 •  Deildarstjóri stoðþjónustu hefur samband við sérkennara viðkomandi teymis og lætur hann vita af nemandanum og afhendir gögn ef þau eru fyrir hendi.
 •  Deildarstjóri, sérkennari teymis og umsjónarkennari hittast og fara yfir málefni nemandans og ákveða fund með foreldrum/forráðamönnum (og nemanda) sem fyrst. Á þeim fundi er lagður fram rammi að áætlun um skipulag náms og kennslu svo og áætlun um það hvernig vinna á að að koma nemandanum inn í námshópinn á félagslegum forsendum.
 • Skipað er teymi utan um viðkomandi nemanda sem í eiga sæti foreldrar, umsjónarkennari, sérkennari teymis, aðili frá Þjónustumiðstöð ef það á við og deildarstjóri sérkennslu situr a.m.k. fyrsta og síðasta fund skólaársins.  Teymið fundar a.m.k. tvisvar á önn.

Samstarf um skipulag kennslunnar, einstaklingsáætlanir, kennsluhætti og fleira.

 •  Deildarstjóri sérkennslu hefur umsjón með móttöku nemenda með sérþarfir í skólann. Umsjónarkennari ber ábyrgð á skipulagningu náms barnsins í góðu samstarfi við sérkennara teymisins, foreldra barnsins og barnið sjálft eins og aðstæður leyfa.
 • Umsjónarkennari og sérkennari bera sameiginlega ábyrgð á gerð einstaklingsáætlunar eða einstaklingsnámskrár þar sem tekið er mið af þroska og stöðu viðkomandi nemenda, óskum foreldra og mati starfsmanna á hverjum tíma.  Í einstaklingsáætlunum skal tiltekið um námsmarkmið, námsaðstæður, námsefni, námsmat og aðrar aðstæður í skólanum. Þar sem það er stefna Norðlingaskóla að vera skóli án aðgreiningar og að nemendur stundi einstaklingsmiðað nám er gert ráð fyrir því að nemandinn stundi nám sitt í sínum námshópi með eða án stuðnings.  En ef það þjónar hagsmunum barnsins er líka boðið uppá sérkennslu í litlum hópi eða einstaklingslega. Námsmatið er lýsandi og hvetjandi, á svipuðu formi og almennt gerist í skólanum og leiðbeinandi um framhald náms og kennslu.
 • Aðgengi og notkun hjálpartækja
 •  Ef skólinn þarf að aðlaga aðgengismál sín vegna komu nýs nemanda í skólann verður leitað allra leiða til að koma þeim í lag.  Það sama á við ef nemandi þarf á hjálpartækjum að halda við nám sitt, þá verður leitað allra leiða í samvinnu við hlutaðeigandi aðila, til að hafa þau tiltæk til náms. Hér getur verið um að ræða tölvur og ýmis jaðartæki fyrir tölvur, lestrarforrit, ýmis gagnvirk forrit, stóla, rúm og margt fleira.

Stuðningur til félagslegrar þátttöku og virkni

 • Umsjónarkennari, sérkennari teymis og deildarstjóri stoðþjónustunnar leita samstarfs við félagsmiðstöðina og frístundaheimilið í hverfinu svo og Þjónustumiðstöð hverfisins um félagsstarf fyrir nemendur með sérþarfir. Þeir sem best þekkja til (umsjónarkennari, sérkennari teymis, deildarstjóri stoðþjónustu)  kynna nemendur með sérþarfir fyrir starfsmönnum félagsmiðstöðvarinnar og frístunaheimilisins og vinna með þeim að leiðum sem henta nemendum með sérþarfir. Leitast  skal við að allir nemendur skólans í markhópi félagsmið­stöðvarinnar geti sótt félagsstarf þangað. Það sama á við um markhóp frístundaheimilisins Klapparholts. Sérstakt félagsstarf fyrir nemendur með sérþarfir getur verið upphaf og aðlögun að almenna starfinu. Í vettvangs­ferðum og lengri ferðum s.s. ferðum í skólabúðir er sérstaklega gætt að því að allir nemendur viðkomandi árgangs geti tekið þátt.

Aðbúnaður og aðstaða

 •  Aðstaða og aðbúnaður til sérkennslu er  í samræmi við lög og reglugerðir. Leitast er við að hafa fjölbreytt úrval námsgagna og nýta tölvur og tölvuforrit til náms allt eftir því sem hentar hverjum nemanda.

 

Samstarf við aðila utan skólans

 • Samstarf er við Þjónustumiðstöð og heilsugæslu hverfisins, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Barna- og unglingageðdeildina,  og aðra þá sem vinna með viðkomandi börn. Umsjónarkennari, sérkennari teymis og deildarstjóri sitja skilafundi og samstarfsfundi eftir þörfum. Sérkennari teymis tekur að sér formennsku í þeim teymum sem eru mynduð vegna nemenda með sérþarfir. Samstarf við foreldra utan teyma eru hefðbundin foreldraviðtöl, samskipti gegnum Mentor/Námfús, með tölvupósti auk samstarfsfunda eftir þörfum og/eða áætlunum sem gerðar eru.
 •  Nemendaverndarráðsfundir eru mikilvægir samstarfsfundir allra fagaðila skólasamfélagsins. Þar eru málefni þessara nemenda gjarnan rædd og farið yfir stöðu þeirra.