Listir í Norðlingaskóla

Þessi kræklja er ný. Hér á að safna saman myndum og verkefnum úr listgreinum Norðlingaskóla s.s. tónlist, textíl, málverkum, smíði og hönnun, dansi og matarlistum.

Fyrsta efnið sem ratar hér inn er frá tónmenntakennaranum okkar

og má sjá hér https://soundcloud.com/user-75357826/sets 

Tónlist er leið til sköpunar og tjáskipta!
Markmiðið í tónmenntatímum er að leysa úr læðingi þá töfra sem búa í sköpunarkrafti nemenda. Verkefnin miða að því að örva hæfileika þeirra til tónlistarsköpunar þar sem hljóð og tónar eru efniviðurinn. Heimur ímyndunaraflsins á sér engin takmörk og í tímum er leitast við að gefa nemendum frelsi til þess að finna hugmyndum sínum farveg með því að vinna úr tónum, hljóðum, þögnum, einir eða í samstarfi við aðra nemendur. Tónlistin er tungumál þar sem nemendur geta tjáð tilfinningar sínar, skoðanir og gildi.

Verkefnin sem hægt er að hlusta á eru unnin í smiðjum og í tímum.

Himingeimurinn
Smiðjan um himingeiminn fjallaði um hlutföll og hvernig og hvort hljóð getur verið til úti í geimnum. Við fjölluðum um hið agnarsmáa og hið óendanlega stóra. T.d að stjörnurnar virka smáar þegar við horfum upp í himininn en ef við ferðumst nær þeim þá stækka þær, einnig að snigillinn er risi í augum maursins en lítill í okkar augum o.s.frv.. Þar sem við getum ekki heyrt eiginleg hljóð í geimnum ímynduðu nemendur sér hvernig hljóð eru í geimverum, lofsteinum, á plánetum, í geimförum o.s.frv.. Nemendur voru beðnir um að nota ímyndunaraflið, ákveða og teikna fyrirbæri úr himingeimnum (raunverulegt eða ekki) og finna hljóð fyrir fyrirbærið. Þau fengu því næst aðstoð við að búa til þessi hljóð og taka þau upp.

KULDI var yfirskrift sameiginlegs verkefnis listgreinanna í Lundi fyrir 4.bekk í vetur. Í tónmennt einbeittu nemendur sér að því að skoða orð sem við notum yfir ýmis kuldaleg fyrirbæri í lífi okkar. Við pældum í litum, áferð, lykt og hljóðum og afraksturinn var sannkallað Kuldahljóðaljóð.

HAFIÐ
Í smiðjunni um hafið kynntumst við ýmsum lífverum þekktum og óþekktum sem búa í hafinu og við strendur Íslands. Nemendur hlustuðu á söguna um Selshaminn og voru svo beðin um að búa til í hópum eigin þjóðsögu þar sem ímyndunaraflið réð ríkjum. Sögurnar skreyttu nemendur síðan með hljóðum og tónum til að gefa þeim aukið líf.

Með vinsemd
Þóranna