Skip to content

Netöryggi

Í Norðlingaskóla er upplýsingatækni mikilvægur hluti af skólastarfinu og hafa nemendur aðgang að tölvum þegar þeir þurfa á þeim að halda í námi, því er hvorki tölvuver né afmarkaðir fastir tölvutímar í skólanum. Í skólanum er þráðlaust net og geta nemendur unnið hvar sem er; á göngum, bókasafni, matsal eða í kennslustofum.

Frá árinu 2012 hafa nemendur í unglingadeild fengið afhenta spjaldtölvu í upphafi 8. bekkjar til umráða, bæði í skóla og heima. Nemendur skrifa undir sérstakan notendasamning þar sem þeir lofa að ganga vel um tækin, fara vel með þau og nota markvisst til að gera námið öflugra. Jafnframt þurfa forráðamenn að skrifa undir. Með notkun spjaldtölva í skólastarfinu fá nemendur tækifæri til að vinna að fjölbreyttum verkefnum í gegnum ólíka miðla og geta nýtt sér ýmis rafræn hjálpartæki í námi sínu. Í gegnum rafrænt kennsluumhverfi geta kennarar dreift rafrænu námsefni með einföldum hætti, veitt hraða endurgjöf í námsmati og átt í gagnvirkum samskiptum við nemendur.

Netheimurinn er orðinn stór hluti af daglegu lífi barna bæði hvað varðar nám og samskipti og möguleikarnir eru óþrjótandi. Rafræn samskipti eru þýðingarmikill þáttur í skólastarfinu; við upplýsingaöflun nýta nemendur hvert annað  sem og aðila úti í samfélaginu. Tölvu- og snjalltækjanotkun er einnig mikilvæg í tungumálakennslu þar sem nemendur geta nota málið sem þau eru að læra og jafnvel haft samskipti við nemendur sem hafa málið að móðurmáli. Nemendur og starfsfólk Norðlingaskóla taka þátt í samstarfsverkefnum innanlands og utan sem fara meðal annars fram með rafrænum hætti.

Þegar tölvur og snjalltæki eru annars vegar ber að hafa í huga að ofnotkun getur haft alvarlegar líkamlegar, andlegar og félagslegar afleiðingar. Á netinu er einnig að finna óæskilegt efni og falsfréttir sem getur verið erfitt að skilja frá æskilegu efni, í því samhengi er mikilvægt að kenna nemendum gagnrýna hugsun og hvernig skal meta efni á netinu. Nauðsynlegt er að fara vel yfir ábyrg samskipti í netheimum og hvað ber að varast. Í Norðlingaskóla er lögð áhersla á að kenna nemendum ábyrga netnotkun en það er hlutverk bæði heimilis og skóla að fræða börn um uppbyggilega notkun upplýsingamiðla.