Nemendafélag Norðlingaskóla

Nemendafélag Norðlingaskóla samanstendur af fjórum meginstoðum sem mynda saman stjórn nemendafélags skólans: skólaráð, nemendaráð, námsnefnd og Holtsráð.

Í skólaráði sitja tveir fulltrúar úr 9. og 10. bekk sem eru kosnir af nemendum. Skólaráðsfulltrúar funda fyrir hönd nemenda með skólaráði skólans. Hlutverk skólaráðsfulltrúa er að vera stjórnendum til ráðgjafar við skipulagningu skólastarfsins. Gerðar eru kröfur um að fulltrúar í skólaráði séu ábyrgir og metnaðarfullir. Einnig að þeir eigi auðvelt með að vinna með öðru fólki, nemendum, starfsmönnum og foreldrum. Þeir sitja mánaðarlegan fund með ráðinu (yfirleitt á skólatíma).

Í nemendaráð er kosinn einn fulltrúi úr 8. bekk, tveir fulltrúar úr 9. bekk og tveir fulltrúar úr 10. bekk. Meginstarf nemendaráðs er að halda utan um og drífa áfram félagslíf nemenda, jafnframt því að skipuleggja stærri viðburði í samvinnu við Holtsráð. Nemendaráðsfulltrúar verða að vera hvetjandi og jákvæðir. Þeir verða að vera tilbúnir til að leggja á sig vinnu við að tryggja góðan anda í nemendahópnum. Fulltrúar verða að vera tilbúnir til að fórna tíma sínum, jafnvel eftir skóla til að funda og skipuleggja viðburði í skólanum.

Í námsnefnd er kosinn einn nemandi úr 8. bekk, einn úr 9. bekk og tveir úr 10. bekk. Námsnefnd á að vera kennurum og öðrum starfsmönnum til ráðgjafar við þróun og skipulagningu kennslunnar. Fylgjast með nemendahópum og geta lagt mat á hvað virkar vel í kennslu og hvað miður. Fulltrúar þurfa að vera frumlegir, hugmyndaríkir og áhugasamir um nám og kennslu. Þeir verða að hafa áhuga á náminu og vilja taka þátt í að gera það enn betra. Þeir verða að sitja reglulega fundi með kennurum og starfsmönnum þar sem starfið er skipulagt.

Holtsráð er stofnað í tengslum við félagsmiðstöðina Holtið en það er félagsmiðstöð hverfisins og ein af þremur félagsmiðstöðvum sem reknar eru af frístundamiðstöðinni Árseli. Félagsmiðstöðin er aðili að Samfés - samtökum félagsmiðstöðva á Íslandi. Markhópur Holtsins eru börn og unglingar í 5. - 10. bekk búsett í Norðlingaholti. Áhersla er lögð á fjölbreytt og uppbyggilegt tómstundastarf fyrir nemendur í 8. - 10. bekk. Mikil áhersla er lögð á ungmennalýðræði og að virkja notendur félagsmiðstöðvarinnar í að fylgja hugarfóstri sínu frá hugmynd til framkvæmdar. Allir geta sótt um að taka þátt í Holtsráði og er valið úr umsóknum í 10 - 14 manna ráð sem er allsráðandi í starfsemi félagsmiðstöðvarinnar. Ráðið kemur síðan að allri dagskrá félagsmiðstöðvarinnar undir handleiðslu forstöðumanns. Meðlimir Holtsráðs þurfa að vera góðar fyrirmyndir fyrir jafnaldra sína og vera drífandi. Þau þurfa að hafa áhuga á starfsemi félagsmiðstöðvarinnar og vera þess reiðubúin að tala hennar máli í ýmsum málefnum. Þeir verða að mæta á fundi ráðsins vikulega.

Í vor var ákveðið að efla samstarf Holtsins og Norðlingaskóla enn frekar en verið hefur og í haust hófst samstarfsverkefni um aukið samstarf og samvinnu með það að markmiði að efla þátttöku og ábyrgð nemenda á félagsstarfi í Holtinu og skólanum. Verkefnið byggir á félagsmálafræðikennslu sem kennd verður verklega í frístundaheimilinu Klapparholti og Holtinu og bóklega í Norðlingaskóla í vetur. Í félagsmálafræðivali sitja þeir nemendur sem hafa verið kjörnir í unglingaráð Holtsins, námsnefnd og nemenda- og skólaráð Norðlingaskóla. Markmið með félagsmálafræðikennslu er m.a. að efla félagslegan þroska nemenda, styrkja þá á félagslegum vettvangi og þar með að styrkja sjálfsmynd og viðhorf þeirra til sín og annarra. Félagsmál eru mikilvægur þáttur í mótun unglinga og heilbrigð félagsleg virkni hefur einungis jákvæð áhrif á líf unglinga. Í félagsmálafræðitímum er farið yfir þætti er tengjast ýmiss konar félagsmálum. Kennd er m.a. framsögn, framkoma og tjáning, fundarsköp og skipulagning á viðburðum og uppákomum svo fátt eitt sé nefnt.

Félagsmálafræðin, í samstarfi við nemendaráð skólans, sér um framkvæmd og skipulag á öllu félagslífi skólans og félagsmiðstöðvarinnar. Kennslan fer því mikið fram í formi verklegra æfinga í viðburðastjórnun. Markmiðið er því að virkja sem flesta í að taka þátt og hafa áhrif á félagslífið. Það að fá sem flesta að borðinu verður svo til þess að nemendur upplifa félagslífið alfarið sem sýna eign og sinna því þeim mun betur.