Skip to content

Námsmat í Norðlingaskóla

Námsmat í Norðlingaskóla

Námsmat í  Norðlingaskóla, útfærsla þess og fyrirkomulag, er í stöðugri þróun. Skólaárið 2021-2022 er áhersla lögð á að vinna markvisst með hæfnimiðað nám og matsviðmið samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla. Auk þess er unnið að samræmingu á námsmati milli skólastiga og að efla upplýsingagjöf til nemenda og foreldra.

Í aðalnámskrá grunnskóla er megináhersla á hæfnimiðað nám og þar eru hæfni og matsviðmið skilgreind á eftirfarandi hátt:

Hæfnimiðað nám – hæfniviðmið: Hugtakið hæfni felur í sér yfirsýn og getu nemenda til að hagnýta þekkingu og leikni. Þekking er bæði fræðileg og hagnýt. Leikni felur í sér að geta beitt aðferðum, verklagi og rökréttri hugsun.

Matsviðmið: Matsviðmið eru lýsing á hversu vel nemandi hefur skilgreinda hæfni á valdi sínu en hver námsgrein hefur skilgreind hæfniviðmið.

 

Fjölbreytt námsmat

Í Norðlingaskóla er skólaárinu skipt upp í tvær annir, haustönn og vorönn og eru annarskil í janúar og júní. Námsmati er fylgt eftir á samráðsdögum við annarskilin þar sem nemendur, foreldrar og umsjónarkennari eiga formlegt samtal um námsárangur, líðan og væntingar. Jafnframt er samráðsdagur í október þar sem farið er yfir skólabyrjunina og samráð haft um væntingar til náms.

Tilgangur með námsmati er að fylgjast með því hvort nemendur hafi náð almennum hæfniviðmiðum  aðalnámskrár, hvetja nemendur til framfara og efla ábyrgð þeirra á eigin námi. Lögð er áhersla á einstaklingsmiðað námsmat sem byggir á fjölbreyttum aðferðum s.s. mati á einstaklingsverkefnum, hópverkefnum, sjálfsmati, jafningjamati, prófi, viðtölum og samræðum við nemendur. Þá er sérstök áhersla lögð á lykilhæfni s.s. skólafærni, félagsfærni og námsfærni sem er undirstöðufærni í öllu námi.

Leitast er við að byggja námsmatið sem mest á aðferðum leiðsagnarnáms, samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla. Með því er átt við að nemendum á að vera ljóst hvaða hæfniviðmið eru lögð til grundvallar námsmatinu þannig að þeir geti reglulega velt fyrir sér námslegri stöðu sinni með kennurum sínum. Þannig geta þeir tekið virkari þátt og borið ríkari ábyrgð á námi sínu. Leitast er við að veita nemendum reglubundna endurgjöf sem stuðlar að námshvatningu og virkni nemenda svo þeir geti bætt árangur sinn.

 

Birtingarform námsmats

Í vetur vinna kennarar að því að setja hæfniviðmið með verkefnum og námsmati inn í  Mentor. Mentor heldur m.a. utan um námsframvindu nemenda og foreldrar og nemendur (eftir aldri og þroska) eiga ávallt að geta fylgst með gangi mála.  Kennarar búa til námslotur fyrir hverja námsgrein þar sem hægt verður að sjá hæfniviðmið viðkomandi greina fyrir komandi skólaár. Kennarar setja einnig inn í  Mentor verkefni og verkefnalýsingar þar sem tilgreint er hvað nemendur eiga að læra og hver viðmið um árangur eru (sem er lýsing á hvernig nemandi uppfyllir hæfniviðmið í viðkomandi verkefni) og meta síðan árangur nemenda. Bókstafir (A, B+, B, C+, C, D) eru einungis gefnir við lok hvers stigs þ.e. við lok yngsta stigs í 4. bekk, við lok miðstigs í 7. bekk og við lok unglingastigs í 10. bekk, að öðru leyti byggir námsmat á hæfnikorti nemanda.

Skólinn birtir námsmat nemenda í Mentor og er birtingarform námsmats tvennskonar:

  1. Hæfnikort. Þegar verkefni er metið í Mentor birtist námsmat hjá hverjum nemanda á svokölluðu hæfnikorti sem segir til um hvar nemandinn stendur á hverjum tíma. Í hverju verkefni eru tilgreind hæfniviðmið sem nemandi vinnur með og er frammistaða nemandans í verkefninu sýnd á  4 þrepa kvarða sem má sjá hér að neðan. Þannig fær nemandi t.d. grænt ef hann hefur náð þeim hæfniviðmiðum sem ætlast er til í verkefninu.  Stefnt er að því að meginþorri nemenda nái grænu, hæfni náð.

Munnlegur vitnisburður er við annarskil, í janúar og júní, á samráðsfundum nemenda, foreldra og kennara. Þá er farið yfir hæfnikortið sem gefur yfirlit yfir frammistöðu nemandans í þeim verkefnum sem hann hefur unnið og skoðað er hvað gengur vel, hvað þarf að bæta og markmið sett um framhaldið.

  1. Matsviðmið og vitnisburður við lok 4. bekkjar, 7. bekkjar og 10. bekkjar

Í aðalnámskrá grunnskóla eru sett matsviðmið fyrir hæfniviðmið í hverri námsgrein/námssviði við lok yngsta stigs í 4. bekk, við lok miðstigs í 7. bekk og við lok unglingastigs í 10. bekk. Matsviðmiðin eru lýsing á hversu vel nemandi hefur skilgreind hæfniviðmið á valdi sínu við lok hvers tímabils/aldurskeiðs. Matsviðmiðin lýsa hæfni á kvarðanum A, B+, B, C+, C, D. Gert er ráð fyrir og stefnt að því að þorri nemenda nái matsviðmiðum fyrir B.

A: Framúrskarandi hæfni og frammistaða í námi með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.

B+: Hæfni náð og gott betur. Notað þegar hæfni er sambærileg þeirri lýsingu sem á við einkunnina B og að hluta til þeirri lýsingu sem á við einkunnina A.

B: Góð hæfni og frammistaða í námi með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs. Þetta er markmið með námi og kennslu og sýnir að nemandi hafi lært það sem ætlast var til.

Gert er ráð fyrir að meginþorri nemenda nái B.

C+: Notað þegar hæfni er sambærileg þeirri lýsingu sem á við einkunnina C og að hluta til þeirri lýsingu sem á við einkunnina B.

C: Sæmileg hæfni og frammistaða í námi með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs. C fá þeir sem standast ekki þær kröfur sem gerðar eru í B viðmiðum.

D: Hæfni og frammistöðu í námi ábótavant. Skólinn gerir grein fyrir hæfni nemenda.

 

Við lok 4. bekkjar, 7. bekkjar og 10. bekkjar fá nemendur vitnisburðarblað með ofangreindum matsviðmiðum sem skilgreind  eru fyrir hæfniviðmið í hverri námsgrein/námssviði á viðkomandi  tímabili/aldursstigi. Vitnisburði er fylgt eftir á samráðsfundi nemenda, foreldra og kennara við lok vorannar.