Skip to content

Áherslur - Sýn

Í starfi Norðlingaskóla er lögð sérstök áhersla á:

 • að starf skólans grundvallist á því lífsviðhorfi að hverjum einstaklingi skuli búin námsskilyrði svo hann megi, á eigin forsendum, þroskast og dafna og útskrifast úr grunnskóla sem sjálfstæður, sterkur og ekki síst lífsglaður einstaklingur.
 • að nemendum líði vel og að nám og starf sérhvers þeirra miðist við þarfir hans og getu sem og sterkar hliðar. Byggt verður á einstaklingsmiðuðum starfsháttum og samvinnu hverskonar.
 • að skólinn sé fyrir alla nemendur skólahverfisins, án aðgreiningar, þar sem engum er ofaukið og allir velkomnir.
 • að árgöngum sé kennt saman, þ.e. að byggt verði á samkennslu árganga sem stuðlar m.a. að aukinni félagsfærni nemenda og auðveldar að hver nemandi fari á sínum hraða á grunnskólagöngu sinni.
 • að starfsfólk skólans vinni í teymum enda stuðlar slíkt fyrirkomulag að því að margbreytileikinn í hópi starfsfólks nýtist nemendum.
 • að skólinn verði í nánum tengslum við samfélagið sem hann er hluti af, m.a. með samstarfi milli heimilanna og skólans þar sem sérþekking foreldra á börnum sínum og sérþekking starfsfólks á skipulagi skólastarfs fléttast saman.
 • að starf skólans taki mið af því menningarlega og náttúrulega umhverfi sem hann er hluti af og stuðli að því að þeir sem eru að flytja í hverfið nái saman og upplifi sig sem hluta af heildstæðu samfélagi.

Starfshættir

 • Samkennsla - Við skólann fer fram samkennsla árganga. Í grunninn er gert ráð fyrir að 1. og 2. bekk sé kennt saman og 3. og 4. bekk.  Þá eru 5., 6. og 7. bekkur saman og 8., 9. og 10. bekkur saman.
 • Einstaklingsmiðun - Í skólanum fer fram einstaklingsmiðað nám samkvæmt vikulegri námsáætlun nemenda.  Þessi áætlanagerð fer fram í áformstímum sem nemandinn á með umsjónarkennara sínum.  Þar er farið yfir hvernig gekk í síðustu viku og hvert ber að stefna í þeirri sem framundan er. Kallast þessar vikulegu einstaklingsáætlanir ÁFORM.
 • Val - Samvinna - Í tengslum við áætlanir sínar vinna nemendur mikið í ýmsum valverkefnum sem oft kalla á samvinnu nemenda. Það að bjóða nemendum upp á val er m.a. gert til að auka fjölbreytni og sveigjanleika, auðvelda sjálfsnám nemendanna og skapa um leið kennurum aukið svigrúm til að sinna hverjum og einum.  Þetta skipulag kallar líka á jafningjafræðslu nemenda, þ.e. sá sem kann kennir þeim sem eru að læra.
 • Áhugasvið - Í svokölluðu áhugasviði velur nemandinn að vinna með eitthvað sem hann hefur sérstakan áhuga á og gerir um það vinnusamning við kennarann sinn. Oft tengist áhugasviðið því sem nemendur eru sterkir í enda er í Norðlingaskóla lögð sérstök áhersla í að efla þá færni sem nemendur eru góðir í.
 • Smiðjur - Sérstök áhersla er lögð á list- og verkgreinar en um þriðjungur af vinnutíma nemenda er unnin í svokölluðum smiðjum. Þar er unnið með hvers konar listir og verknám sem samþætt er hinum ýmsu greinum grunnskólans s.s. samfélagsfræði, náttúrufræði og umhverfismennt. Í smiðjunum er oft meiri aldursblöndun en í almennu starfi skólans.