Skip to content

Jólatré sótt í reit Skógræktarfélags Reykjavíkur við Rauðavatn

Einn af skemmtilegu jólasiðunum okkar í Norðlingaskóla er að nemendur í 1. og 10. bekk ganga saman upp í Heiðmörk eða á annan þann stað sem finna má jólatré sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur plantað. Skógræktarfélagið hefur frá stofnun skólans verið svo vinsamlegt að gefa okkur veglegt jólatré sem nemendur og starfsfólk hafa notið þess að horfa á og dansa í kringum, fyrir það erum við afar þakklát.

Þessa hefð gátum við haldið í á þessum skrýtnu tímum þar sem allt fór fram utanhúss. Elstu og yngstu nemendur okkar fóru í þennan leiðangur þriðjudaginn 8. desember í fallegu veðri en talsverðri hálku. 10. bekkingarnir okkar stóðu sig frábærlega við að leiða yngstu samnemendur sína yfir verstu hálkuna og voru almennt til mikillar fyrirmyndar, og 1. bekkingarnir okkar stóðu sig líka frábærlega.

Fundið var tré í reit við Rauðavatn, í Hólmsheiðinni, í þægilegri göngufjarlægð frá skólanum.

Krakkarnir gæddu sér á kakó og piparkökum þegar tréð hafði verið fellt og gengu síðan til baka.

Hér má sjá nokkrar myndir frá göngunni.