Skip to content

Harry Potter vika í unglingadeild

Fyrstu vikuna í janúar annað hvert ár breytist unglingadeild Norðlingaskóla í Hogwarts, galdraskólann úr Harry Potter bókunum. Nemendum er skipt niður á vistirnar fjórar; Slytherin, Ravenclaw, Gryffindor og Hufflepuff. Nemendur og kennarar klæðast búningum alla vikuna og nemendur sjá alfarið um að útbúa sína vist og liggur mikill metnaður þar að baki. Kennarar Hogwarts heimsækja svo vistirnar fjórar í upphafi og lok dags í svokallaða vistarskoðun og taka nemendur þá vel á móti þeim með atriðum, veitingum og ýmsum uppátækjum. Alla vikuna sækja nemendur tíma í anda Hogwarts. Hápunktur vikunnar er svo á föstudeginum þegar vistirnar fjórar keppa í Quidditch sem er galdramannaíþróttin úr Harry Potter bókunum. Í lok föstudagsins fer afhending vistarbikarsins fram en í ár hlaut Hufflepuff vistarbikarinn. Frábær vika að baki, eins og einn kennarinn orðaði það: ,,Samskipti, samheldni, umburðarlyndi, sköpunarkraftur og kappsemi einkenndi þessa daga í unglingadeild Norðlingaskóla. Framtíðin er björt!“ Hér á heimasíðunni má sjá myndir frá vikunni og hér er umfjöllun Fréttablaðsins um viðburðinn.