Samstarf við foreldra

Stefna skólans um foreldrasamskipti, samstarf og upplýsingamiðlun hefur verið í mótun frá upphafsárum skólans. Alla tíð hefur samstarfið einkennst af jákvæðum samstarfsanda milli foreldra og starfsfólks skólans þar sem bryddað hefur upp á nýjungum og blásið til sóknar bæði með það sem vel hefur þótt takast og einnig með það sem betur má fara.
Frá skólaárinu 2011 - 2012 hefur verið unnið með markvissum hætti að draga saman og beina kastljósinu enn frekar að styrkleikum og sóknarfærum skólans í foreldrasamstarfi og upplýsingamiðlun. Skólaráð, stjórn foreldrafélagsins og bekkjarfulltrúar hafa ekki látið sitt eftir liggja og staðið þétt við bakið á skólastjórnendum og starfsfólki skólans við að skapa þá sameiginlegu sýn sem birtist í stefnu skólans um foreldrasamskipti, samstarf og upplýsingamiðlun.
Í stefnunni er greint frá samstarfi skólans og foreldrasamfélagsins m.a. hlutverki og skyldum skólaráðs, foreldrafélagsins og bekkjarfulltrúa ásamt ýmsum hefðum og venjum sem skapast hafa í gegnum árin. Einnig er fjallað um upplýsingaskyldu og upplýsingamiðlun skólans. Þá eru ræddar niðurstöður úr könnunum um foreldrasamskipti og upplýsingamiðlun sem bæði fræðsluyfirvöld og Norðlingaskóli hafa framkvæmt á síðustu árum. Auk þess er greint frá niðurstöðum erlendra rannsókna um jákvæð áhrif foreldrasamstarfs á námsárangur nemenda.
Í stefnunni er greint frá áætlun Norðlingaskóla um samstarf við foreldra til þriggja ára, 2013-2016. Markmið samstarfsáætlunarinnar er einkum tvíþætt, samstarf um félagsstarf og samstarf um námið. Annarsvegar er lögð áhersla á að styrkja og festa í sessi það bekkjarfulltrúastarf sem grunnur hefur verið lagður að, þ.e. að ýmsir viðburðir, skemmtanir og annað samstarf bekkjarfulltrúa og kennara miðist við hvern árgang. Hinsvegar miðast áætlunin við að auka hlutdeild foreldra í námi nemenda með markvissari hætti en gert hefur verið. Samstarfsáætlunin byggir á fjölbreyttu mati á foreldrasamskiptum og upplýsingamiðlun milli skóla og heimila. Matið er m.a. unnið úr viðhorfskönnunum sem fræðsluyfirvöld leggja reglulega fyrir foreldra grunnskólabarna og úr viðhorfskönnunum sem skólinn stendur sjálfur fyrir í skólasamfélaginu. Einnig er mikil áhersla lögð á að hlustað sé á raddir foreldra og kennara þegar kemur að mati á foreldrasamstarfi í dagsins önn. Auk þessa er leitast við að byggja samstarfsáætlunina á niðurstöðum erlendra rannsókna um samstarf skóla og heimilis sem talið er ýta undir námsárangur nemenda og árangursríkt skólastarf.