Skip to content

Foreldrasamstarf

Starfsmenn og foreldrafélag Norðlingaskóla leggja ríka áherslu á að skólastarfið einkennist ávallt af miklu samstarfi skólans við heimilin. Að nemandinn sé í forgrunni og að árangur nemandans náist best með víðtæku samstarfi við nemandann sjálfan og forráðamenn hans.  Það er stefna skólans að hlusta á raddir foreldra og gera sér far um að leita alltaf allra leiða til að auka hlutdeild foreldra sem mest í námi nemenda og almennu skólastarfi. Í samstarfi við foreldrafélag skólans hefur skólinn farið fjölbreyttar og óhefðbundnar leiðir til að efla samskipti sín við heimilin.

Helstu leiðir í foreldrasamskiptum og upplýsingamiðlun í Norðlingaskóla eru kynningarfundir og ýmsir opnir viðburðir þar sem foreldrahópum er boðið í skólann á ákveðna kynningarfundi og viðburði en þeir hafa frjálsar hendur um hvort þeir sinna boðinu eða ekki. Aðrir þættir eru formleg foreldrasamskipti, rafræn samskipti, töskupóstur og samskipti í gegnum foreldrafélagið.

Skólinn býður foreldrum á fjölbreytta viðburði í skólanum en þeim er ætlað að auka þátttöku foreldra í skólastarfinu, efla tengsl starfsfólks við foreldra og tengsl foreldra innbyrðis. Einnig er þessum viðburðum ætlað að skapa jákvæðan skólabrag, veita foreldrum innsýn í skólastarfið og auka hlutdeild þeirra í námi barna sinna. Af helstu viðburðum í skólastarfinu má nefna foreldraskóladaga þar sem foreldrum er boðið að taka þátt í skólastarfi þar sem nemendur kenna áhugaverða hluti sem þeir hafa verið að læra. Aðrir viðburðir eru til dæmis heimsóknir foreldra í kennslustundir á svonefndum foreldraskólavikum sem og söngstundir. Bekkjarkvöld skipa einnig stóran sess þar sem bekkjarfulltrúar halda utan um skipulag þessara kvölda ásamt kennurum. Af stórhátíðum sem skólinn stendur fyrir má einkum nefna jólaskólann, Norðlingaleika og leiksýningu. Fjölskyldum nemenda er boðið að taka þátt í jólaskóla á síðasta degi fyrir jólafrí en þar fer fram fjölbreytt dagskrá. Á Norðlingaleikum er foreldrum boðið að fylgja barni sínu eftir í gegnum hópleik þar sem nemendur spreyta sig í að leysa ýmsar þrautir. Nemendur á mið- og unglingastigi setja árlega upp leikrit og er öllum nemendum skólans og foreldrum boðið á leiksýninguna.

Formleg foreldrasamskipti eiga sér stað á skólaboðunardegi og á samráðsdögum. Þau skera sig úr í flokkuninni því gerð er meiri krafa til foreldra að sinna þeim. Ef foreldrar sjá sér ekki fært að mæta á samráðsfundi eða sinna skólaboðun á tilsettum tíma er fundin leið sem hentar foreldrum þannig að tryggt sé að upplýsingum sé komið á framfæri. Á samráðsdögum, sem eru þrisvar á skólaárinu, fara fram formlegir samráðsfundir þar sem nemendur og forráðamenn þeirra eru sérstaklega boðaðir í skólann til að fara yfir námsstöðu, líðan og hegðun barnsins. Undanfari þessara funda er námsmat og matssamtöl sem kennarar hafa tekið einslega við nemendur um námslega stöðu, líðan og áhugamál þeirra. Áherslur úr matssamtölum ásamt vitnisburðarblöðum eru send heim til upplýsinga fyrir foreldra og síðan lögð til grundvallar á samráðsfundi með kennara. Skólaboðunardagur felur í sér heimsóknir starfsmanna inn á heimili nemenda í upphafi skólaárs, ár hvert. Í skólaboðun er upplýsingum um starfshætti og kennslufyrirkomulag vetrarins komið á framfæri og er foreldrum afhent ýmis skrifleg gögn og eyðublöð. Nemendur eru með svokallaðar áformsbækur þar sem þeir gera áform um námsmarkmið vikunnar. Áformsvinna nemenda fellur undir formleg foreldrasamskipti þar sem áformsbækur eru alltaf í töskum nemenda til að foreldrar séu sem best upplýstir um námsframvindu barna sinna.

Upplýsingum er að miklu leyti komið á framfæri með rafrænum hætti en þau fara einkum fram í gegnum tölvupóst í Mentor, heimasíðu auk símhringinga. Upplýsingar, sem miðlað er með tölvupósti, eru fjölbreyttar en þar hafa kennarar og foreldrar samskipti sín á milli um námið og líðan nemenda. Kennarar miðla til foreldra því sem helst er á döfinni í hverri viku í föstudagspósti. Skólastjóri sendir foreldrum bréf reglulega og mikilvægum tilkynningum frá skólanum er einnig komið á framfæri í gegnum almennan tölvupóst. Foreldrar og kennarar hafa einnig samskipti sín á milli símleiðis og eru upplýsingar af svipuðum toga og í tölvupósti. Heimasíðan geymir efni um stefnu og áherslur í skólastarfi. Þar eru birtar fréttir og tilkynningar og einnig er myndir úr skólastarfinu að finna á heimasíðunni.

Skriflegar upplýsingar sem sendar eru heim með nemendum eru flokkaðar undir töskupóst. Þessi miðill er að verða æ sjaldgæfari og er einna helst notaður þegar koma þarf mikilvægum upplýsingum á framfæri og oft hafa þá sömu upplýsingar einnig verið sendar með tölvupósti. Þetta eru meðal annars áríðandi tilkynningar eins og tímasetning samráðsfunda, upplýsingar frá hjúkrunarfræðingi, samantekt úr matssamtölum og vitnisburðarblöð nemenda.

Foreldrafélagið miðlar upplýsingum um samstarfið milli skóla og heimilis og heldur utan um bekkjarfulltrúastarf ásamt kennurum skólans. Foreldrafélaginu er ætlað að efla tengslin milli skóla og heimilis og sinna félagsstarfi nemenda í skólanum.