Skip to content

Bekkjarfulltrúar

Bekkjarfulltrúastarf í Norðlingaskóla er með þeim hætti að fjórir fulltrúar foreldra eru að meðaltali úr hverjum árgangi og gegnir hver bekkjarfulltrúi störfum í tvö ár í senn. Árlega koma því tveir nýir fulltrúar inn en tveir sitja áfram. Að vori vinnur stjórn foreldrafélagsins með skólastjórnendum og umsjónarkennurum að því að manna bekkjarfull­trúastöður fyrir næsta skólaár til að skipulag starfsins geti hafist sem fyrst á haustdögum. Á haustdögum verður sendur tölvupóstur til forráðamanna nemenda skólans þar sem fram kemur yfirlit yfir bekkjarfulltrúastöður.

Viðburðir á vegum bekkjarfulltrúa og foreldrafélags

Í Norðlingaskóla er stefnt að því að bekkjarfulltrúar í hverjum árgangi:

  • Skipuleggi a.m.k. eina skemmtun eða viðburð fyrir nemendur á hvorri önn.
  • Aðstoði umsjónarkennara við að halda svokölluð bekkjarkvöld/bekkjarskemmtanir í skólanum a.m.k. einu sinni á skólaárinu.
  • Haldi foreldrakvöld í hverjum árgangi að hausti þar sem foreldrar fá tækifæri til að hittast og kynnast og stuðla að sameiginlegum áherslum í uppeldinu eins og t.d. útivistartíma, ýmsu sem snýr að afmælum nemenda og öðru samráði sem stuðlar að sterkri samstöðu foreldra.
  • Stuðli að góðu upplýsingaflæði til foreldra og aðstoði kennara og stjórn foreldrafélagsins m.a. við að koma boðum til foreldra um ýmsa viðburði sem bæði bekkjarfulltrúar, stjórn foreldrafélagsins og skólinn stendur fyrir.

Viðburðir sem bekkjarfulltrúar standa fyrir eru fjölbreyttir. Árgangar halda sínar bekkjarskemmtanir eða bekkjarkvöld á þann hátt að umsjónarkennarar hafa skipulagt með nemendum uppákomu sem tengist skólastarfi nemenda og foreldrum er boðið að koma og sjá afraksturinn. Oft eru því haldnar uppskeruhátíðir í kringum smiðjulok eða sérstök nemendaverkefni. Einnig standa bekkjarfulltrúar fyrir skemmtunum í samráði við nemendur og má þá helst nefna spilakvöld, gistingu í skólanum, skautaferðir ásamt  bíó- og leikhúsferðum.