hausbanner

Löng helgi framundan, sameiginlegur starfsdagur á fimmtudag og 1. maí, föstudag.

.

fifillFimmtudagurinn 30. apríl er sameiginlegur starfsdagur leik- og grunnskóla í Árbæjarhverfi og eiga nemendur frí þann dag. Fyrsti maí, baráttudagur verkalýðsins er næstkomandi föstudag, hann er almennur frídagur og því enginn skóli þann dag. Frístundaheimilið Klapparholt er opið 30. apríl fyrir nemendur sem sótt hafa sérstaklega um vistun þann dag, en lokað 1. maí.

Heimsókn frá Kiwanisklúbbnum Jörfa

.

hjalmar11Í síðustu viku fengu nemendur í 1. bekk góða  heimsókn frá  Kiwanisklúbbnum Jörfa. Þeir komu að venju með gjafir, hjálma með led-ljósi og höfuðklút fyrir alla nemendur í 1. bekk.  Kiwanis hafa gefið öllum nemendum í 6 ára bekk reiðhjólahjálma undanfarin 10 ár. Markmið hjálmaverkefnis Kiwanis hefur frá upphafi verið að stuðla að öryggi barna í umferðinni með því að gefa nemendum reiðhjólahjálma. Bæta þannig öryggi þeirra í umferðinni og koma í veg fyrir alvarleg slys.  Hjálmarnir nýtast einnig vel við notkun hjólabretta og hjólaskauta.  Við hvetjum alla forráðamenn til að passa vel uppá að börn þeirra noti hjálma.

Sumardagurinn fyrsti, á morgun

.

fifillSumardagurinn fyrsti er á morgun, fimmtudaginn 23. apríl. Hann er almennur frídagur og því enginn skóli og Klapparholt lokað. Sumardagurinn fyrsti, einnig kallaður Yngismeyjardagur, er fyrsti dagur Hörpu, sem er fyrstur af sex sumarmánuðum í gamla norræna tímatalinu.
Starfsfólk Norðlingaskóla óskar öllum innilega gleðilegs og sólríks sumars og þakkar einstaklega gott samstarf í vetur. Í næstu viku hefst síðasti hluti skólaársins og mörg spennandi viðfangsefni framundan.

Glæsilegur árangur í boðsundi

.

sundhopurNorðlingaskóli tók þátt í árlegri boðsundskeppni grunnskólanna sem fram fór í annað skipti í gær. Sundsamband Íslands hélt keppnina í Ásvallalaug í Hafnarfirði í samstarfi við Sundfélag Hafnarfjarðar.
Alls voru 22 skólar skráðir til leiks með 43 lið í heildina. Keppt var 2 flokkum, flokki 5.-7. bekkjar og 8.-10. bekkjar í 8x25 metra boðsundi með frjálsri aðferð. Frá Norðlingaskóla tóku 3 lið þátt í flokki 5. – 7. bekkjar og 1 lið í 8.-10. bekkjar. Eitt af okkar liðum í yngri flokk náði 5. sætinu sem er frábær árangur! Það lið skipuðu Ríkharður Darri, Hrannar Ingi, Hermann Ósland, Dagbjartur Alex, Arey Rakel, Freyja Rún, Guðrún Ragna og Katrín Vala. Hér má sjá myndir frá keppninni og frá morgunstund í dag þegar klappað var fyrir sundköppunum. MYNDIR

Vorið er komið og grundirnar gróa

.

hjolKæru foreldrar og forráðamenn.
Með hækkandi sól og batnandi veðri fjölgar ýmsum leiktækjum og fararskjótum sem nemendur eiga og taka með sér í skólann. Af því tilefni viljum við minna ykkur á að skólinn ber ekki ábyrgð á eigum nemenda s.s. boltum, sippuböndum, reiðhjólum, hjólabrettum, hjólaskautum, hlaupahjólum, hjálmum og ýmsu öðru skemmtilegu dóti. Ákveði nemandi að koma með einhver tæki að heiman er það á hans eigin ábyrgð. Það er því áríðandi að hafa lása á hjólunum.
Þá viljum við minna foreldra á að hægt er að koma í veg fyrir alvarleg slys með því að nota hjálma og því förum við fram á að nemendur sem mæta á hlaupahjóli, reiðhjóli, hjólabretti eða línuskautum hafi hjálma.
Ef komið er á reiðhjólum eða rafknúnum hjólum í skólann verður að geyma þau á hjólastandinum. Það er óheimilt að hjóla í frímínútum vegna slysahættu. Hins vegar má nota línuskauta, hlaupahjól og hjólabretti að því tilskildu að nemendur noti hjálma.
Með vorkveðjum
Stjórnendur