hausbanner

Foreldraskólavika 27.-31. október

.

ForeldraskoladagurKæru foreldrar í næstu viku, 27. -31. október, er foreldraskólavika, og þá bjóðum við ykkur sérstaklega í heimsókn í skólann. Fyrirkomulagið er með þeim hætti að hægt er að heimsækja nemendur inn í hvaða kennslustund sem er og því geta foreldrar hitt börn sín á þeim tíma sem hentar hverjum og einum þessa vikuna.
Í foreldraskólavikunni fá foreldrar tækifæri til að kynnast fjölbreyttu skólastarfi og í því sambandi má t.d. nefna að á miðvikudaginn er síðasti smiðjudagur í fyrstu smiðju ársins og hægt er að sjá afrakstur úr smiðjuvinnunni víða inn í námshópunum. Í morgunstundinni á þriðjudaginn kl. 8:15 syngur skólakórinn nokkur lög. Hann mun einnig koma fram við hátíðlega opnun bókasafnsins á fimmtudaginn kl. 17:00 en þá er langþráðum áfanga náð þar sem samrekið skóla- og almenningsbóksafn verður opnað. Við bjóðum ykkur hjartanlega velkomin í skólann til að vera viðstödd þennan merka áfanga í sögu skólans. Opnun bókasafnsins verður kynnt nánar í næstu viku.
Hlökkum til að sjá ykkur í foreldraskólavikunni.
Með góðri kveðju,
starfsfólk Norðlingaskóla

Aðalfundur foreldra- og starfsmannafélagsins Vaðsins

.

VadidFORELDRA- OG STARFMANNAFÉLAGIÐ VAÐIÐ

Boðar til aðalfundar þriðjudaginn 28.10.2014 kl 19.00 í matsal nemenda á fyrstu hæð.

Fundurinn hefst á aðalfundarstörfum kl 19.00 og léttum veitingum í boði félagsins. Að aðalfundarstörfum loknum taka þau Kristín Tómasdóttir og Bjarni Fritzson við með áhugaverðan fyrirlestur „Út fyrir kassann" um sjálfsmynd unglinga.

Vetrarleyfi 17. október og 20.-21. október

.

fifillFöstudaginn 17. október, mánudaginn 20.- og þriðjudaginn 21. október er vetrarleyfi nemenda og starfsmanna í Norðlingaskóla. Öll kennsla fellur þá niður.

Frístundaheimilið Klapparholt verður opið föstudaginn 17. október og þriðjudaginn 21. október en lokað mánudaginn, 20. október.

Vonandi eiga foreldrar, nemendur og kennarar gott og skemmtilegt vetrarfrí. Kennarar og nemendur mæta síðan endurnærðir, hressir og kátir til starfa miðvikudaginn 22. október.

Skákkennsla

.

SkakÁgætu foreldrar ég heiti Einar Ólafsson og hef starfað sem kennari og skólastjóri allan minn starfsaldur og langar að klára starfsferilinn með því að kenna börnum að tefla hér í Norðlingaskóla. Í vetur verð ég með 1. og 2. bekk á fimmtudögum milli kl. 11:00-13:40 og 3. og 4. bekk á fimmtudögum kl. 8:30-11:00. Eftir skóla á fimmtudögum frá kl. 14:00-15:00 verða síðan skákæfingar fyrir 5. – 7. bekk og vil ég endilega biðja foreldra að hvetja krakkana sína til að prófa að koma og reyna fyrir sér í skákinni (sjá myndir).

Hattadagur, forvarnarfræðsla, norræna skólahlaupið og gullskórinn

.

gongumiskolann

Það voru fjölbreytt höfuðföt á morgunstund í gær 7. október, á hattadegi. Morgunsöngurinn var að venju ómfagur og nemendur tóku vel undir. Að þessu sinni var fjölbreytt dagskrá en kynnt voru úrslit í ,,Göngum í skólann“, niðurstöður úr norræna skólahlaupinu og frumsýnd mynd eftir nemendur í 5.-10. bekk skólans í tilefni forvarnardagsins (sem kom upp á samráðsdeginum 1. október). Sigurvegarar í Norræna skólahlaupinu voru nemendur í 4  bekk en þeir hlupu samtals 360 km, samtals hljóp skólinn 2515 km. Fyrsti bekkur vann gullskóinn í ár, þau gengu samtals 375 km. Mikill fögnuður var hjá  1. bekk þegar úrslitin voru kynnt enda eru þetta fyrstu verðlaunin sem 6 ára krakkarnir okkar vinna á þessu skólaári, mjög efnilegur hópur (sjá myndir af stoltum sigurvegurunum). Að lokum var frumsýnd ný mynd um einelti sem nemendur í 5.-10. bekk unnu saman með Fríðu Ólafsdóttur náms- og starfsráðgjafa. Myndinni var ákaft fagnað enda vel unnin og áhugaverð. Eins og myndirnar, sem hér fylgja með voru nemendur glaðir og áhugasamir. MYNDIR